
Bæjarráð Akraneskaupstaðar lýsir yfir vonbrigðum með niðurstöðu Evrópusambandsins um að leggja verndartolla á framleiðslu Elkem á Grundartanga. Þetta kemur fram í nýjustu fundargerð ráðsins.
Álfheiður Ágústsdóttir forstjóri Elkem var á fundinum og greindi frá stöðu mála.
Yfirlýsing bæjarráðs er í heild sinni hér fyrir neðan:

„Bæjarráð skorar á stjórnvöld að vinna áfram af krafti til að fá þessari ákvörðun hnekkt. Óvissa um rekstrarumhverfi starfsemi Elkem á Grundartanga hefur neikvæð áhrif og skapar óvissu. Því skiptir núna mestu máli að fram fari hreinskiptið og lausnamiðað samtal um hagsmuni Elkem á Grundartanga, og annarra fyrirtækja þar, til skemmri og lengri tíma.
Bæjarráð Akraneskaupstaðar skorar á stjórnvöld að leita allra leiða og engum leiðum verði hafnað til að tryggja stöðugleika og framþróun á einu mikilvægasta iðnaðarsvæði á Íslandi, á Grundartanga. Þar vegur þyngst þáttur samkeppnishæfni rafmagns á afhentum grunni til verksmiðju. Sá þáttur er ávarpaður í vinnu stjórnvalda að atvinnustefnu, sem nýlega voru birt og er tekið undir þau sjónarmið. Hraða verður vinnu vegna endurskoðunar á forsendum verðlagningar á raforku – með að markmiði að treysta samkeppnisstöðu iðnaðarins og tryggja með þeim hætti forsendur fyrir áframhaldandi rekstri Elkem á Grundartanga.“









