Ívar Örn Benediktsson gaf nýverið út sitt fyrsta lag – Ívar starfar sem prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands en útgáfudagur á fyrstu plötu Skagamannsins verður 31. janúar 2026. 

Ívar Ben segir í viðtali á Bylgjunni að hann hafi samið lög frá því hann var unglingur en hann hefur aldrei gefið neitt út opinberlega áður. 

„Foreldrar mínir gáfu mér hljómborð þegar ég var barn en ég fór aldrei í tónlistarskóla. Ég spilaði töluvert á hljómborðið og á unglingsárunum fékk ég gítar og þá fór boltinn að rúlla,“ segir Ívar en hann er fæddur árið 1978 og lék knattspyrnu með ÍA, Skallagrím og Víkingum í Reykjavík. 

Ívar segir að námskeið hjá Jóni Ólafssyni tónlistarmanni hafi gert það að verkum að hann fór alla leið í það að búa til hljómplötu. 

„Ég hafði alltaf verið bara einn með gítarinn heima að semja lög það hefur verið  meiri áskorun að gera texta. Ég fann að það var eitthvað þarna og langaði að koma þessu áfram. Það gerðist á Covidtímabilinu. Þá sá ég að sveitungi minn frá Akranesi, leikarinn Hallgrímur Ólafsson, Halli Melló, sagði frá lagasmíðanámskeiði hjá Jóni Ólafssyni. Hef samband við Jón og spyr hvort þetta sé eitthvað fyrir mig. Skrái mig til leiks – fórum í gegnum fullt af efni sem ég átti, samdi meira, hann gaukaði að mér textum og þá fór boltinn af stað.,“ segir Ívar m.a. í viðtalinu. 

Ívar Örn er sonur Friðgerðar Bjarnadóttur og Benedikts Rúnar Hjálmarsson og kemur platan út á afmælisdegi föðurs hans 31. janúar 2026.  Rúnar var fæddur árið 1946 og hefði því orðið áttræður á næsta ári, en hann lést aðeins 44 ára gamall. 

Fyrsta lagið sem Ívar Ben gefur heitir Stríð og er fimmtán ára gamalt – en textinn varð til efitr að ófriður braust út víða í heiminum nýverið. Viðtalið við Ívar Ben er í heild sinni hér fyrir neðan – og þar má einnig hlusta á lagið. 

Ívar Örn er sérfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans og aðjúnkt við jarðvísindadeild. Rannsóknir hans eru á sviði ísaldar- og jöklajarðfræði og snúa einkum að landmótun jökla og vexti þeirra og hnignun í tíma og rúmi vegna loftslagsbreytinga. Nánar hér