
Gabríel Snær Gunnarsson hefur skrifað undir samning við karlalið ÍA í knattspyrnu á ný. Gabríel Snær er fæddur árið 2008 og vakti athygli á síðustu leiktíð þar sem framherjinn skoraði eitt mark í þeim 12 leikjum sem hann tók þátt í með ÍA í Bestu deild karla. Hann var í stóru hlutverki með 2. flokki karla þar sem hann skoraði 25 mörk í 20 leikjum.
Leikmaðurinn hefur leikið með yngri landsliðum Íslands á undanförnum misserum og var valinn í U-19 ára landsliðið s.l. haust.

Erlend lið hafa sýnt Gabríel Snæ mikinn áhuga – og hefur hann farið í heimsókn til liða á undanförnum árum.
Gabríel Snær lék með yngri flokkum ÍBV áður en fjölskylda hans flutti á Akranes. Faðir hans er Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem lék sem atvinnumaður með Halmstad og Häcken í sænsku úrvalsdeildinni. Gunnar Heiðar þjálfar í dag lið HK í Lengjudeildinni en hann náði áhugaverðum árangri með Njarðvík á síðustu leiktíð.
Mynd: Jón Gautur photography







