
Skipulags – og umhverfisráð Akraneskaupstaðar er á þeirri skoðun að viðræður verði hafnar við Golfsamband Íslands þess efnis að Garðavöllur á Akranesi verði þjóðarleikvangur golfíþróttarinnar. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs.
Framsókn – og frjálsir, sem eru í minnihluta í bæjarstjórn, eru sammála meirihlutanum – eins og fram kemur í bókun flokksins sem er hér fyrir neðan.

Frumkvæðið að þessari hugmynd kemur frá Golfsambandi Íslands – en fulltrúar GSÍ funduðu með bæjarráði í desember á síðasta ári.
Ríkisvaldið gaf á sínum tíma út þá yfirlýsingu að taka þátt í uppbyggingu og rekstri á slíkum mannvirkjum. Ef þetta verður niðurstaðan kæmi verulegt fjármagn frá ríkinu í þetta verkefni.
Til upplýsinga þá eru 23 Íslandsmót á keppnisdagskrá GSÍ á næsta ári.
Gera má ráð fyrir að Þjóðarleikvangur framtíðarinnar tæki að sér framkvæmd meirihluta þeirra móta sem flest standa yfir í 2-4 daga.
Í bókun bæjarráðs kemur eftirfarandi fram:
„Slíkt framtak væri afar jákvætt og mikilvægt skref í að styrkja stöðu golfíþróttarinnar, efla aðstöðu til keppni og mótahalds og skapa umgjörð sem stenst alþjóðlegar kröfur. Þá fellur hugmyndin vel að áherslum íþróttasveitarfélagsins Akraneskaupstaðar og mun án efa opna á tækifæri til uppbyggingar í íþrótta- og heilsutengdri ferðaþjónustu.
Golfíþróttin hefur vaxið hratt á undanförnum árum og liggur fyrir að golfvellir á höfuðborgarsvæðinu eru víða fullnýttir og sums staðar orðnir uppseldir hvað varðar rástíma og aðgengi. Garðavöllur hefur sterka stöðu meðal golfvalla landsins, bæði hvað varðar gæði vallarins og náttúrulegt umhverfi og aðgengi, og er því vel til þess fallinn að gegna hlutverki þjóðarleikvangs í golfi. Þegar hefur farið fram mikil og vönduð vinna á vegum GL sem verður mikilvægur grunnur að framtíðarskipulagi og ákvörðunum um stækkun Garðavallar. Meirihluti ráðsins leggur ríka áherslu á að í skipulagi Akraneskaupstaðar verði gert ráð fyrir stækkun og frekari uppbyggingu vallarins. Slík stækkun myndi styrkja stoðir Garðavallar og gera hann að raunhæfum valkosti til framtíðaruppbyggingar íþróttarinnar á landsvísu.
Við teljum mikilvægt að viðræður Akraneskaupstaðar, Golfsambands Íslands, Golfklúbbsins Leynis og annarra lykilhagsmunaaðila haldi áfram með skýr markmið um hlutverk, fjármögnun og þróun þjóðarleikvangsins til lengri tíma. Slíkt kallar á breiða samvinnu og mikilvægt er að uppbyggingin styðji við jafnt afreksíþrótt, almenningsíþrótt og aukið aðgengi.“
Sædís Alexía Sigurmundsdóttir, fulltrúi Framsóknar og frjálsra, lagði fram eftirfarandi bókun vegna málsins:
„Framsókn og frjálsir telja að fyrirliggjandi hugmyndir um að Garðavöllur verði þróaður sem þjóðarleikvangur í golfi feli í sér mikilvægt og áhugavert tækifæri fyrir Akraneskaupstað. Slíkt verkefni er í góðu samræmi við stefnu bæjarins um heilsueflandi samfélag og styður jafnframt við áform um frekari uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu.Golfklúbburinn Leynir rekur í dag einn af fremstu golfvöllum landsins og naut félagið mikillar aðsóknar sumarið 2025, með yfir 800 skráðum félagsmönnum auk rúmlega 100 barna og ungmenna í yngri flokkum. Þessi staða endurspeglar bæði gæði aðstöðunnar og sterka samfélagslega skírskotun klúbbsins.Framsókn og frjálsir taka jákvætt í verkefnið og leggja til að unnin verði viljayfirlýsing milli Akraneskaupstaðar, Golfklúbbsins Leynis og Golfsambands Íslands. Í slíkri yfirlýsingu verði skýrt kveðið á um hlutverk allra aðila og ráðist í nánari greiningu á möguleikum, forsendum og tillögum sem snúa að því að þróa Garðavöll sem þjóðarleikvang í golfi.“








