„Ég veit að Ísólfur er sjóðheitur fyrir þessum 30 ára gamla bíl“

„Ég veit að Ísólfur Haraldsson er heitur fyrir þessum bíl og ég held að það sé bara að henda í slagorðið „OB bílinn heim á Skagann,“ segir Skagamaðurinn Jón Páll Pálsson sem er forstöðumaður tæknireksturs útvarps og sjónvarps hjá RÚV. Skagafréttir rákust á auglýsingu á dögunum þar sem að gamall útsendingarbíll frá RÚV er boðin til sölu en Jón Páll segir að bíllinn hafi þjónað sínu hlutverki með sóma.

Jón Páll hefur starfað hjá RÚV frá árinu 1998. „Ég kom inn fyrst sem aðstoðarmaður við lýsingu og kvikmyndatökur í myndverið. Árið 2000 var ég fastráðinn sem kvikmyndatökumaður. Starfaði sem slíkur til ársins 2012 og var þá ráðinn deildarstjóri upptökudeildar sjónvarps,“ segir Jón Páll en hann er sonur Margrétar Jónsdóttur kennara og Páls Jónatans Pálssonar málarameistara.

Jón Páll telur að útsendingabíllinn myndi sóma sér vel á Skaganum í ýmsum verkefnum en RÚV óskar eftir nýjum eiganda á þessum 30 ára gamla bíl.

 

Ég veit að Ísólfur Haraldsson er heitur fyrir þessum bíl og ég held að það sé bara að henda í slagorðið „OB bílinn heim á Skagann

„Við erum að selja „gamla“ vegna þess að hann hefur þjónað sínum tilgangi og rúmlega það. Hann var keyptur árið 1986 frá Bretlandi og var þá nýr. Fimm kameru útsendingabíll og var bylting fyrir sjónvarpsútsendingar á þeim tíma. Það var dekrað við þessa græju og eflaust væri háskerpuútsendingabíll löngu kominn til landsins ef hann hefði ekki enst svona vel.

RÚV fjárfesti 2013 í nýjum útsendingarbíl HD með 10 kamerur og höfum við nýtt gamla í ýmis verkefni síðan. Nú síðast hefur hann verið þjónustubíll fyrir stærri verkefni eins og Skaupið. Nú er þörfin orðin lítil fyrir hann hjá okkur svo við verðum að losa okkur við hann með miklum söknuði.

Jón Páll.

Það vekur athygli að bíllinn er aðeins ekinn 115 þúsund km á þessum 30 árum.

Jón Páll var inntur eftir því hvort bíllinn hafi ávallt verið bilaður eða hvort RÚV hafi ekki sinn þjónustuhlutverki sínu og látið hann standa á planinu við RÚV flesta daga.

„Við höfum ekkert verið að rúnta neitt aukalega á honum milli útsendinga. Flestar þeirra hafa verið hér á höfuðborgarsvæðinu í gegnum árin og mjög margar þeirra tengdar íþróttaviðburðum. Þetta eru ekki nema milli 10-20 km sem liggja bakvið hverja útsendingu en hann hefur aðeins verið keyrður um 4000 km á ári að meðaltali sem er nú ekki mikið.

Hann hefur þó nokkrum sinnum farið um landið þó við hefðum viljað gera það oftar, en hann fór t.d. hringinn um landið í beinni „slow“ útsendingu í fyrra. Eins hefur hann líklega komið við á flestum stærri stöðum á landinu og sent út. Hann hefur líka sent út alla okkar stærstu viðburði hér á landi á þessum árum.“

Jón Páll segir að mörg eftirminnileg atvik hafi átt sér stað í sögu bílsins.

Það munaði einu sinni

mjög litlu að við hefðum misst hann í sjóinn

„Það munaði einu sinni mjög litlu að við hefðum misst hann í sjóinn. Þá tókum við frekar djarfa ákvörðun og koma bílnum á pramma og sigla með hann út í Viðey til þess að sýna frá tendrun friðarljósins. Við keyrðum nokkuð hratt út á prammann og þá kom mikil slagsíða á bílinn og prammann. Þetta voru langar sekúndur þegar menn horfðu á hann í þessum halla. En sem betur fer reisti hann sig við og við komum honum yfir. Hann hefði vel getað endað á hafsbotni.“

Jón Páll vonast til þess að útsendingabíllinn fá góðan eigenda sem haldi áfram að halda honum vel við og nýti hann í skemmtileg verkefni.

„Þessi bíll hefur mikla sögu og vonandi er henni ekki lokið strax. Ég man ekki alveg hvort það eru öskubakkar í honum en það er víst að það hefur aldrei verið reykt í honum. Hann er með sniðugt ljós í mælaborðinu sem kemur ef það vantar olíu á hann Og ég held að hann komist alveg uppí 80 km á góðum degi. Það eru allir velkomnir að koma og skoða hann að Suðuhrauni 3 í Garðabæ og gera svo tilboð í hann á síðunni bilauppod.is,“ sagði Jón Páll Pálsson.

212 213 214 215 216 220