Sindri Birgisson og Alfreð Þór Alfreðsson voru í síðustu viku ráðnir í störf hjá Akranskaupstað. Þetta kemur fram á akranes.is. Sindri var ráðinn í starf umhverfisstjóra en alls sóttu níu aðilar um starfið. Alfreð Þór var ráðinn í starf rekstrarstjóra á skipulags – og umhverfissviði. Alls sóttu þrettán um það starf.
Á vef Akraneskaupstaðar kemur eftirfarandi fram um þá Sindra og Alfreð Þór.
Sindri er með MS gráðu í skipulagsfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Sindri hefur að baki farsæla reynslu af verkstjórn þar af lengst sem verkstjóri við almennt viðhald og framkvæmdir á opnum svæðum hjá Akraneskaupstað frá árinu 2013 – 2016.
Frá september 2016 hefur Sindri gengt tímabundið starfi umhverfisstjóra hjá Akraneskaupstað. Sindri hefur komið að umhverfisverkefnum í tengslum við Garðalund, Langasand og Breið á Akranesi sem og einnig unnið að betrumbótum á leikvöllum á Akranesi með stofnun svokallaðra hverfisgarða.
Alfreð er húsasmíðameistari frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Alfreð hefur að baki farsæla reynslu af stjórnun og góða þekkingu á uppbyggingu fasteigna.
Lengst af hefur Alfreð gengt starfi verksmiðjustjóra hjá húseiningadeild BM Vallá, með ábyrgð á skipulagningu þeirra verkefna er lúta að framleiðslu og verkefnum sem tengjast beint framkvæmdum. Í fyrri störfum sínum hefur Alfreð starfað sem verkstjóri hjá Ístak og kom m.a. að smíði vatnsaflvirkjana, brúarmannvirkja, gangnagerð, hafnargerðar, skolphreinsistöðvar svo fátt eitt sé nefnt.