Starfsmenn VÍS tóku Mottumarsdaginn með trompi en VÍS er með útibú á Kirkjubraut 40 á Akranesi. Í tilkynningu frá VÍS kemur fram að hefðbundnu föstudagskaffi hafi verið breytt í fjáröflunarkaffi til styrktar Mottumars. Þetta er árlegt átak Krabbameinsfélagsins þar sem áhersla er lögð á baráttu gegn krabbameini hjá körlum. Í ár var sérstök áhersla lögð á að auka þekkingu á skaðsemi tóbaksnotkunar.
Þátttaka starfsmanna var frábær en um 70% þeirra tóku þátt. Kaffi var haldið á skrifstofum víða um land, s.s í Reykjavík, á Akranesi, á Ísafirði, í Reykjanesbæ, á Akureyri og á Egilsstöðum. Starfsmenn greiddu fyrir kaffi og meðlæti sem rann beint til Krabbameinsfélagsins. VÍS tvöfaldaði svo þá upphæð sem starfsmenn söfnuðu. Alls söfnuðust kr. 520.000.- sem afhentar voru Krabbameinsfélaginu.
Á myndinni má sjá Helga Rúnar Jónsson og Sigrúnu A. Þorsteinsdóttur, starfsmenn VÍS, afhenda Kolbrúnu Silju Ásgeirsdóttur, kynningar- og fjáröflunarstjóra, afrakstur söfnunarinnar.