Valdís Þóra Jónsdóttir atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi hefur leik fimmtudaginn 13. apríl, á LET Evrópumótaröðinni. Mótaröðin er sú sterkasta í Evrópu og fer LALLA Meryem mótið fram á Golf Dar Es Salam vellinum.
Heildarverðlaunaféð er um 55 milljónir kr. Valdís hefur leik kl. 10:06 að íslenskum tíma. Hún er í ráshóp með Lina Belmati frá Marokkó og Jenny Haglund frá Svíþjóð fyrstu tvo keppnisdagana. Alls eru keppnishringirnir fjórir og verður niðurskurður eftir tvo hringi.
Mótið á LET er haldið samhliða móti á Evrópumótaröðinni í karlaflokki. Þetta er annað mótið á þessu tímabili þar sem leikið er á LET mótaröðinni samhliða atvinnumóti í karlaflokki. Valdís lék á slíku móti í Ástralíu á sínu fyrsta LET móti á ferlinum en mótið í Marokkó er annað mót hennar á þessu tímabili á LET. Valdís Þóra endaði í 51. sæti á Oates Victorian mótinu í Ástralíu þar sem hún lék á -1 samtals (71-73-74).