Félagar í Rótarýklúbbi Akraness settu upp brú um s.l. helgi við Berjadalsá í Akrafjalli. „Rótarýbrúin“ hefur auðveldað göngufólki að komast um Akranfjallið en Rótarýklúbburinn smíðaði brúna fyrir nokkrum árum.
Brúin er tekin niður á haustin eftir að tvær brýr sem áttu að standa af sér veturinn höfðu eyðilagst í leysingum að vori. Þessi nýja „Rótarýbrú“ er því alltaf tekin upp á haustin og sett niður á vorin þegar ekki er talin vera hætta á því að hún eyðileggist.
Félagarnir í Rótarýklúbbi Akraness löguðu einnig merkjastikur í Akrafjallinu en þær sýna hæð yfir sjávarmáli og nákvæma staðsetningu.
Rótarýklúbbur Akraness á sér langa sögu eða allt til ársins 1947 þegar stofnfundur Rótarýklúbbs Akraness var haldinn í Báruhúsinu á Akranesi laugardaginn 29. nóvember 1947. Klúbburinn á því 70 ára afmæli síðar á þessu ári.