Bæjarráð Akraness samþykkti á fundi 26. maí s.l. ósk listamanns þess efnis að mála vegg Sementsverksmiðjunnar. Í erindi listamannsins óskaði hann efitr því að mála einn vegg sem snýr að Faxabraut, nánar tiltekið frá listaverki Guttorms og út að enda veggjarins í austur.
Á veggnum eru fyrir þrjú eldri listaverk en búið er að fá samþykki fyrir því að mála yfir þau frá hlutaðeigandi. Samkvæmt upplýsingum frá listamanninum er hugmyndin að „vinna þetta á staðnum“ og nota íslensk orðatiltæki og málshætti sem væru myndskreyttir. Og allt á þetta að tengjast Akranesi og sögu staðarins með einhverjum hætti,“ segir m.a í erindinu.
Bæjarráð samþykkti erindið og hefur falið forstöðumanni menningar- og safnamála að vinna úr málinu. Enginn kostnaður fellur á Akraneskaupstað vegna málsins.