Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fór fram í tuttugasta og áttunda sinn í dag sunnudaginn 18. júní. Góð þátttaka var í hlaupinu en gera má ráð fyrir að um 10.000 konur hafi tekið þátt á yfir 80 stöðum um allt land og víða erlendis. Skagakonur mættu vel að venju í hlaupið á Akranesi og nokkur hundruð mættu og tóku þátt. Hér fyrir neðan má sjá myndasyrpu frá Akratorgi í veðurblíðunni í dag.
Í kringum 2.000 konur hlupu í Garðabænum, 1.000 í Mosfellsbæ, 200 á Akureyri og rúmlega 200 konur hlupu í Reykjanesbæ.
Að vanda var boðið upp á mismunandi vegalengdir eða allt frá 900 m upp í 10 km. Mikil og góð stemning var hjá þátttakendum konum sem körlum, ungum sem öldnum. Markmið Kvennahlaupsins hefur frá upphafi verið að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu. Hver kona tekur þátt á sínum forsendum og lögð er áhersla á að allar konur komi í mark á sínum hraða. Þó svo að hlaupið hafi í upphafi verið ætlað konum eins og nafn þess gefur til kynna þá hafa karlmenn alltaf verið velkomnir í hlaupið. Það var því gaman að sjá hversu margir strákar tóku þátt í hlaupinu í dag.