Arnór talar sænsku, eldar mat og þrífur eins og „fagmaður“

Skagmaðurinn Arnór Sigurðsson stökk út í djúpu laugina fyrr á þessu ári þegar hann gerðist atvinnumaður í knattspyrnu. Arnór er 18 ára gamall og hefur komið sér vel fyrir í Norrköping þar sem hann býr ásamt kærustunni í grennd við vinnustaðinn. Arnór segir að margt hafi komið sér á óvart á fyrstu mánuðunum í Svíþjóð.

„Ég viðurkenni það fúslega að einu almennilegu þrifin sem ég gerði í upphafi í íbúðinni var þegar ég átti von á mömmu og pabba í heimsókn frá Íslandi. Ég kunni ekkert að elda eða að þrífa en það hefur lagast mikið og ekki síst eftir að kærastan flutti til mín,“ segir Arnór í ítarlegu viðtali við skagafrettir.is.

„Það hjálpaði mikið til að ég þekkti aðeins til hjá liðinu þegar ég flutti hingað út eftir að hafa skrifað undir hjá Norrköping í lok mars. Ég hafði tvívegis komið til reynslu til félagsins og farið í eina æfingaferð til Portúgals. Ég þekkti því aðeins leikmennina og þjálfarana,“ segir Arnór þegar hann er inntur eftir því hvernig hann hafi náð að aðlagast umhverfinu á fyrstu mánuðunum á nýjum slóðum. Arnór bjó á hóteli fyrstu vikurnar en hann fékk íbúð um miðjan apríl.

Talar bara sænsku og er með gott stuðningsnet

„Eitt af markmiðum mínum var að koma mér sem fyrst inn í hópinn, læra sænskuna, því það skiptir gríðarlega miklu upp á framhaldið að gera. Eftir hálft ár hérna í Svíþjóð þá tala ég eingöngu sænsku. Það eru allir tilbúnir að hjálpa hérna hjá félaginu. Góður andi og fjölskyldustemning. Ég er yngstur í liðinu en liðsfélagarnir taka mér vel og það er gott að hafa íslensku strákana með í hópnum,“ segir Arnór en Jón Guðni Fjólusson, Guðmundur Þórarinsson og Alfons Sampsted leika með Norrköping.

Það mæta 18.000 áhorfendur á leikina, það er geggjuð stemning á heimaleikjunum.

„Við Alfons erum mikið saman en hann er árinu eldri en ég – við náum vel saman og það hefur hjálpað okkur báðum að aðlagast betur. Við búum í sömu blokk og erum mikið saman þegar við eigum frí.“

Ragna Dís Sveinbjörnsdóttir frá Akranesi er kærasta Arnórs og hún flutti út í lok ágúst og það breytti miklu fyrir Arnór.

„Við búum mjög nálægt vellinum en við erum um 2 mínútur að ganga á völlinn sem er voðalega þægilegt. Ég er 10 mínútur frá miðbænum og þetta er því allt saman mjög hentugt. Stærðin á Norrköping er svipuð og Reykjavík, það búa um 130.000 manns hérna. Þægileg stærð, ekki of stór eða of lítill. Allt sem ég þarf er hér, þetta er fallegur staður og margt sem er hægt að skoða og gera.“

Ragna Dís og Arnór.

Þreif bara þegar mamma og pabbi komu í heimsókn

Arnór og Alfons hafa verið að fikra sig áfram í húsverkunum og telur Arnór að hann hafi tekið miklum framförum í eldamennskunni. „Ég byrjaði ekkert rosalega vel þegar við Alfons vorum að byrja að elda saman í upphafi. Ég hef lært mikið á þessum stutta tíma og tel mig vera ágætis kokk núna. Ragna Dís hefur einnig hjálpað mikið til með þetta. Þvottavélin var líka verkefni en það þarf að að bóka tíma í þvottahúsinu hérna í blokkinni en þetta er allt á réttri leið.“

Fólk stöðvar Arnór í miðbænum og óskar eftir mynd eða eiginhandaráritun.

Það er mikið stökk að fara úr efstu deild á Íslandi í Allsvenskan í Svíþjóð. Arnór segir að það sem hafi komið sér mest á óvart sé hversu stór deildin er í heild sinni. Fólk stöðvar hann í miðbænum og óskar eftir mynd eða eiginhandaráritun.

Allt miklu stærra en Arnór hafði ímyndað sér

„Það er stór breyting fyrir mig að fara frá ÍA og í vinnu við það sem mér finnst skemmtilegast að gera – spila fótbolta. Ég hef tíma til þess að æfa og gera það sem ég þarf að gera til að ná markmiðum mínum. Allsvenskan er miklu stærri en ég átti von á. Þá er ég að tala um klúbbinn og allt í kringum deildina. Aðstæðurnar eru til fyrirmyndar, líkt og hjá ÍA, en þar sem Norrköping er atvinnumannaklúbbur, þá er umgjörðin allt önnur en ég á að venjast. Það mæta 18.000 áhorfendur á leikina, það er geggjuð stemning á heimaleikjunum. Við æfum á aðalleikvanginum, þar sem það er gervigras á vellinum, og það er líka frábær líkamsræktarsalur sem er alveg nýr sem við getum notað hvenær sem er.“

 

Aukaæfingar og reglusemi

Aukaæfingar og reglusemi einkenna líf Arnórs en hann lýsir venjulegum degi hjá með þessum hætti.

„Ég vakna um 7:30 og liðið borðar morgunmat saman um 8-8.30 á vellinum. Æfingin byrjar kl. 10 og eftir venjulega æfingu þá tek ég alltaf aukaæfingu. Það er misjafnt hvað ég geri á þeim æfingum, skot, sendingar, móttaka eða styrktaræfing. Eftir æfinguna fer í ísbað, nudd eða gufubað. Við liðsfélagarnir borðum hádegismat saman og ég er kominn heim um kl. 13. Þá legg ég mig í 30 mínútur. Það sem eftir lifir dags nýti ég með ýmsum hætti – fer eftir því í hvernig stuði ég er í.

Stundum þarf ég að læra, ég fer í bæinn, golf, sund eða tek aðra aukaæfingu á vellinum. Það eru stundum æfingar hjá liðinu á milli 14-15, en það fer eftir leikjaálagi hvernig ég haga mínum tíma. Á kvöldin spilum við pool, borðtennis eða eitthvað slíkt. Ég reyni að fara að sofa um 22:30 þegar það er leikur eða æfing daginn eftir.“

Stefnir á stúdentspróf frá FVA á næstu tveimur árum

Arnór stunda nám við Fjölbrautaskóla Vesturlands, FVA, samhliða atvinnumennskunni og það er því nóg að gera hjá honum.

Þjálfarinn minn leggur áherslu á að ég sé í námi

„Ég hef átt gott samstarf við FVA og ég stefni á að klára stúdentsprófið eftir 2 ár. Þjálfarinn minn leggur áherslu á að ég sé í námi þar sem ég er það ungur. Mér finnst það líka mikilvægt að klára stúdentsprófið en eftir það kemur það bara í ljós hvað ég geri í framhaldinu. Starfið mitt er í forgangi en ég hef einnig metnað fyrir því að standa mig vel í skólanum. Ég er atvinnumaður í fótbolta en skólinn er einnig mikilvægur.“

Bankar á dyrnar hjá aðalliðinu

Arnór hefur komið inná í tveimur síðustu leikjum Norrköping en hann hefur alltaf verið í leikmannahóp frá því hann kom til liðsins.

Arnór Sigurðsson kemur inn á í sínum fyrsta leik í efstu deild.

„Þegar ég skrifaði undir þá vissi að það tæki tíma að komast inn í hlutina á fyrsta árinu. Ég fékk leikheimild í maí og fór þá beint inn í hópinn. Ég spila alla leikina með U21 árs liðinu, sem er mikilvægt fyrir mig. Þolinmæði, vera tilbúinn þegar tækifærið kemur og láta verkin tala er það sem ég hugsa mest um núna. Ég er bara 18 ára og er að spila með einu af bestu liðum Svíþjóðar og ég þarf að vera þolinmóður. Vonandi fæ ég fleiri leiki með aðalliðinu í ár.

Ég er bara 18 ára og er að spila með einu af bestu liðum Svíþjóðar og ég þarf að vera þolinmóður.

Á næsta undirbúningstímabili set ég miklar kröfur á sjálfan mig og ef vel gengur þá opnast fleiri tækifæri. Samkeppnin er gríðarleg og ekkert sjálfgefið í þessum heimi. Hausinn þarf að vera í lagi og það koma tíma þar sem mótlætið er til staðar og þá verð ég að vera klár að höndla það.“

Norrköping er fimmta sæti deildarinnar en liðið var í harðri baráttu um efsta sætið við Malmö á fyrri hluta tímabilsins.

„Við erum að berjast um 2.-3. sætið en það er þéttur pakki liða sem eru á þessum slóðum. Við erum að spila vel um þessar mundir eftir að hafa misst aðeins flugið eftir fríið í sumar. Vonandi höldum við áfram að leika vel og markmiðið er að komast í Evrópusæti,“ sagði Arnór Sigurðsson við skagafrettir.is.

Ættartréð:
Sigurður Þór Sigursteinsson og Margrét Ákadóttir eru foreldrar Arnórs.

Systkini Arnórs eru Ingi Þór og Sunna Rún.
Afi og amma Arnórs í föðurætt eru Sigursteinn Hákonarson a.k.a Steini í Dúmbó og Sesselja Hákonardóttir. Áki Jónsson og Sunna Bryndís Tryggvadóttir eru einnig afi og amma Arnórs.