Það er margt áhugavert sem kemur fram í niðurstöðum af íbúafundi þar sem farsæl eldri ár á Akanesi var til umfjöllunnar. Fundurinn fór fram í lok september á þessu ári og þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar standa eftirfarandi atriði upp úr:
Ánægja með búsetu á Akranesi
Fundarmönnum líður almennt vel á Akranesi. Það sem þeir kunna sérstaklega að meta er passleg stærð bæjarfélagsins sem leiðir til samheldni íbúa, nágrannakærleika og nándar. Nálægðin við höfuðborgina er einnig talin kostur auk þess sem á Akranesi megi finna alla nauðsynlega þjónustu. Mikil ánægja er með þau fjölmörgu tækifæri til útivistar og hreyfingar sem bjóðast á Akranesi, sem státar af mörgum útivistarperlum. Gott og öflugt félagsstarf er í boði fyrir eldri borgara ásamt
fjölbreyttri og góðri velferðar- og heilbrigðisþjónusta.
Fjölbreytt búsetuúrræði
Fundarmenn vilja sjá fjölbreytt búsetuúrræði sem henta hverjum og einum þannig að eldri borgarar hafi raunhæft val um að búa heima, í dvalarrými eða í þjónustuíbúð. Mikilvægt er að tryggja að hjón geti búið saman þrátt fyrir misjafnt heilsufar. Einnig var lagt til að lækka álögur á eldri borgara eins og fasteignagjöld og holræsagjöld.
Bætt upplýsingagjöf
Fundarmenn telja mikilvægt að aldraðir geti nálgast greinargóðar og aðgengilegar upplýsingar um þá þjónustu sem þeim stendur til boða, helst á einum stað. Í þessu samhengi var stungið upp á þjónustufulltrúa til að leiðbeina þeim auk þess að hafa upplýsingar aðgengilegar í bæklingum og rafrænt. Einnig þyrfti að bæta upplýsingaflæðið milli aðstandenda, eldri borgara og þjónustuaðila.
Heilsuefling og forvarnir
Fundarmenn telja mikilvægt að Akraneskaupstaður hvetji og styðji eldri borgara til heilsueflingar með því að tryggja gott aðgengi að líkamsræktaraðstöðu, útivistarsvæðum og gönguleiðum. Einnig vilja þeir sjá reglulega fræðslu um næringu og önnur heilsutengd atriði og áherslu á eflingu forvarna.
Félags- og tómstundastarf
Fundarmenn nefna mikilvægi þess að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá í félags- og tómstundastarfi í góðu og aðgengilegu húsnæði sem væri með föstum opnunartíma. Einnig voru nefndar hugmyndir um að nýta húsnæði bæjarins í auknum mæli undir félagsstarf. Upplýsingar um félagsstarfið þurfa að vera aðgengilegar á einum stað og samstarf milli FEBAN og félagsstarfs Akraneskaupstaðar að vera gott. Samgöngurnar þurfi að vera góðar til að fólk geti sótt tómstundir.
Þjónusta við eldri borgara
Almennt vilja fundarmenn að uppbygging þjónustu sé framsýn og heiltæk. Nefndar voru hugmyndir eins og að stofna ráðgjafarráð/-nefnd 60+ eða færa þjónustuna undir skóla- og frístundasvið 60+ Einnig var lagt til að innleiða Eden-hugmyndafræðina á stofnunum og heimilum.
Heilbrigðis- og félagsþjónusta
Fundarmenn kalla eftir öflugri og samþættri heima- og félagsþjónustu til að gera fólki kleift að búa íeigin húsnæði eins lengi og kostur er. Auka þarf fagþekkingu í málaflokknum og ráða vel menntað fólk til að sinna eldri borgurum. Þjónustan þarf að vera vel skilgreind og taka mið af þörfum hvers og eins.
Þátttaka eldri borgara
Fundarmenn telja að gefa ætti eldri borgurum tækifæri til að vinna eftir 70 ára aldur og sinna sjálfboðaliðastörfum og/eða samfélagsverkefnum. Mikilvægt er að meta þá að verðleikum og að þeir hafi hlutverk. Hlusta þarf á skoðanir þeirra, þarfir og hugmyndir, taka mark á þeim og taka ákvarðanir með þeim en ekki bara um þá. Ýmsar hugmyndir voru nefndar eins og að stofna samráðshóp, öldungaráð eða umboðsmann aldraðra. Fundarmenn telja mikilvægt mótuð sé stefna til langs tíma í
málefnum eldri borgara.
Virkni eldri borgara
Fundarmenn eru mjög meðvitaðir um mikilvægi þess að taka virkan þátt í samfélaginu og nýta þá þjónustu sem í boði er. Það sem þeir geta sjálfir gert til að stuðla að farsælum efri árum er að þeirra mati að sinna hugðarefnum og tómstundum, stunda heilbrigt líferni, temja sér jákvæðni og lífsgleði, rækta hugann, rækta félagsleg tengsl og undirbúa ævikvöldið.
Skýrsluna má lesa í heild sinni með því að smella á myndina hér fyrir neðan.