Skipulags- og umhverfisráð Akraneskaupstaðar samþykkti á fundi þann 17. október síðastliðinn að ganga til samninga við lægstbjóðanda um niðurrif Sementsverksmiðjunnar. Útboðsverkinu var skipt í tvo þætti og mun Work North ehf. sjá um framkvæmd á þætti eitt. Alls bárust tólf tilboð í verkið.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað.
Umfjöllun í fjölmiðlum á undanförnum vikum hefur verið töluverð um valið á verktakanum Work North ehf, og þar vakti þessi frétt DV mikla athygli.
Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu daga er eftirfarandi tilkynningu komið á framfæri – segir í tilkynningu frá Akraneskaupstað.
„Vegna málsins og til frekari upplýsingar er rétt að taka fram að eftir að ljóst var að Work North átti lægsta tilboðið sem var lægra en kostnaðarmat gerði ráð fyrir, leitaði sveitarfélagið sér upplýsinga um verk sem félagið hafði unnið hjá Hafnarfjarðarbæ fyrir skemmstu. Um var að ræða niðurrif húss í Hafnarfirði sem kallað var Dvergurinn. Félaginu var borin vel sagan varðandi það verk. Jafnframt var upplýst að hæfi félagsins hefði verið skoðað og að sú skoðun hafi ekki leitt í ljós nein atriði sem útilokuðu félagið frá því verki.
Þar sem tilboð félagsins var lágt miðað við ætlun var óskað nánari skýringa frá félaginu á forsendum tilboðsins. Þær skýringar sem gefnar voru metnar trúverðugar af sérfræðingum sveitarfélagsins.
Vegna ábendinga um að félagið eða forsvarsmenn þess tengdust glæpastarfsemi eða slíkum aðilum var jafnframt óskað eftir upplýsingum um eigendur og eigendur þeirra félaga (lögaðila) sem eiga Work North m.a. sakarvottorðum forsvarsmanna. Á þeim eða í þeim gögnum kom ekkert þar fram, að mati lögmanns sveitarfélagsins, sem leitt gæti til þess að Akraneskaupstaður gæti hafnað boði Work North.
Jafn ítarleg skoðun á tilboðsaðila hefur ekki farið fram áður af hálfu sveitarfélagsins og það þrátt fyrir að félagið hafi unnið fyrir fleiri sveitarfélög.“