Eitt elsta dómarafélag landsins óskar eftir nýliðum

„Það vantar fleiri dómara í hópinn okkar sem er að eldast aðeins. Okkur vantar aðstoð og við getum lofað því að þetta er skemmtilegt og gefur mikið af sér,“ segir Steinar Sævarsson sem er ein af sterkum stoðum í Knattspyrnudómarafélagi Akraness. Félagið er eitt það elsta á þessu sviði á Íslandi og á sér langa sögu. „Fjölmörg aðkomulið hafa hrósað félaginu fyrir hve vel er staðið að dómaramálum í leikjum hér á Akranesi og við viljum að svo verði áfram. Dómaranámskeiðið sem fer fram mánudaginn 27. febrúar er hluti af því verkefni hjá KFÍA og KDA.

„Það eru margir sem eru á hliðarlínunni og hafa skoðun á flestu, við viljum fá þessa aðila með í starfið okkar,“ bætir Halldór Breiðfjörð Jóhannesson við en skagafrettir.is litu við á æfingu hjá KDA á dögunum. Það er alveg ljóst að það er nóg pláss fyrir konur í hópi KDA og það er eitt helsta markmið félagsins að fjölga konum í dómgæslu. „Félagsskapurinn er skemmtilegur og félagið heldur vel utan um sína félagsmenn,“ bætir Steinar við.

Hér má sjá hluta af félögum í KDA. Ef myndin prentast vel sést vel hversu góðir Valgeir Valgeirsson og Steinar Sævarsson eru í því að loka augunum þegar ljósmyndir eru teknar.

Þetta gerist víst aldrei í leikjum þar dómararnir eru ávallt með galopinn augun.

Það eru margir sem eru á hliðarlínunni og hafa skoðun á flestu, við viljum fá þessa aðila með í starfið okkar

„Við hvetjum alla til að taka þátt og sérstaklega konur. Þær konur sem hafa lagt þetta fyrir sig hafa fengið mörg verkefni og eru fljótar að færast upp í alvöru leiki í landsdeildum,“ segir Halldór en félagsmenn KDA eru flestir mikið bókaðir yfir sumartímann í verkefnum hjá KSÍ víðsvegar um landið. Fimm dómarar úr KDA dæma í efstu deildum í karla – og kvennaflokki. Og það vantar því dómarar til þess að sinna þeim verkefnum sem eru á Akranesi í leikjum hjá yngri flokkum ÍA.
„Þeir sem leggja sig fram geta á fáum árum unnið sig upp í að fá spennandi verkefni bæði hér á landi og erlendis.

Við hvetjum alla til að taka þátt og sérstaklega konur. Þær konur sem hafa lagt þetta fyrir sig hafa fengið mörg verkefni og eru fljótar að færast upp í alvöru leiki í landsdeildum

  • Dómarar sem ljúka prófi fá ýmis fríðindi og ávinning af því að taka að sér dómgæslu.
  • Þar má nefna:
  • Fríðmiða á alla leiki á vegum KSÍ.
  • Greiðslur fyrir leiki.
  • Frítt í sund.
  • Frítt í tækjasalinn á Jaðarsbökkum.
  • Frímiða á lokahóf ÍA.
  • Æfingar hjá deildadómurum ÍA
  • Þrektíma hjá þjálfara.
  • Auk annarra viðburða á vegum KDA.
  • Frábær félagsskapur.
  • Skráning á námskeiðið fer fram í gegnum síma 4331109 eða í gegnum netfangið: [email protected]
  • Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Steinari (8636430) eða Halldóri (8227020).