Uppbyggingu má ekki tefla í voða af skammtímasjónarmiðum

Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA í ítarlegu viðtali við skagafrettir.is

Það er mikið rætt um fótbolta á Akranesi og gengi ÍA liðsins í Pepsi-deild karla hefur verið „heitt“ umræðuefni á undanförnum vikum. Liðið er ásamt Víkingum frá Ólafsvík með 3 stig þegar sex umferðir eru búnar af Íslandsmótinu. ÍA er í næst neðsta sæti og það er ljóst að verkefnið verður erfitt að halda sæti sínu á meðal bestu liða landsins í efstu deild.

Skagafréttir fékk Gunnlaug Jónsson þjálfara ÍA til þess að svara nokkrum spurningum um stöðu liðsins, leikmannamál, og ýmislegt annað. Í því spjalli kemur margt áhugvert fram og þá sérstaklega að Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari er ánægður með þá hugmyndafræði sem Skagamenn hafa tileinkað sér – að gefa ungum leikmönnum tækifæri.

Markmið ykkar sem liðs fyrir Íslandsmótið 2017? Hver voru þau í grófum dráttum?

„Markmið félagsins er að halda áfram þeirri uppbyggingu sem búin er að vera í gangi frá 2014 sem felst í því að festa liðið í sessi í efstu deild. Það ætlum við að gera með því að byggja liðið á heimamönnum og gefa ungum leikmönnum tækifæri og traust. Búa til kjarna leikmanna sem liðið verður byggt á næstu árin.“

Erum að skapa okkur fleiri færi en áður

Staðan eftir 6 umferðir er 3 stig, 13 mörk skoruð og 17 fengin á ykkur. Sóknarleikurinn virðist í lagi því aðeins Stjarnan og FH hafa skorað fleiri mörk – en ekkert lið hefur fengið fleiri mörk á sig en ÍA. Varnarleikurinn er vandamál liðsins – hver er skýringin á því?

„Við vissum að byrjunin myndi reynast okkur erfið þar sem við komum frekar laskaðir inn í mótið. Veturinn var erfiður og það var ýmislegt sem spilaðist ekki með okkur. Lykilmenn féllu úr skaftinu; og svo dæmi sé tekið þá er nánast öll varnarlínan okkar frá í fyrra ekki til staðar núna og því höfum við þurft að byggja upp nýja varnarlínu. Við trúðum því að við myndum fljótlega finna holninguna og hún kom gegn ÍBV þar sem við áttum flottan leik sérstaklega í varnarleiknum. Okkur skortir þó stöðugleika í varnarleikinn, en við erum að slípast til og verða betri. Það jákvæða við það er að við erum skapa miklu fleiri færi og skora mun fleiri mörk en síðustu 2 tímabil. Við höfum skorað alls 13 mörk í þessum 6 umferðum í ár miðað við 3 mörk árið 2015 og alls 5 mörk tímabilið 2016. Markaskorunin dreifist meira en alls hafa 7 leikmenn skorað 13 mörk í fyrstu 6 umferðunum. Það er mjög jákvætt því margir höfðu á orði að við yrðum í miklum vandræðum að skora mörk og liðið væri of háð Garðari Gunnlaugssyni í markaskoruninni.“

Erlendir leikmenn ÍA. Hvernig er vinnuferlið á bak við valið á þeim? Hver tekur ákvörðunina um að fá leikmann, þjálfari eða stjórn, eða sameiginleg ákvörðun?

„Það koma margir að þeim ákvörðunum. Þetta er svipað og hjá flestum öðrum liðum. Þjálfarateymið tekur ákvörðun um hvernig leikmann vantar í liðið og við erum í sambandi við marga umboðsmenn víða í Evrópu. Ef við teljum að við séum með rétta leikmaninn í sigtinu fáum leyfi frá stjórn til að bjóða leikmanninum hingað til frekari skoðunar og fyrir hann að skoða okkar aðstæður. En svo geta verið alls konar hindranir hvort viðkomandi leikmaður er tilbúinn að spila á Íslandi, bæði fjárhagslegar og persónulegar.“

Gæti vinnuferlið verið betra hjá ÍA þegar kemur að vali á erlendum leikmönnum?

„Já örugglega, en þetta snýst að einhverju leyti um sambönd og heppni. Við erum búnir að vera að vinna í því að auka tengsl okkar við aðila erlendis í þeim tilgangi. En það er erfitt að gefa sér fyrirfram hvaða leikmenn ná sér á strik og hvaða leikmenn gera það ekki. Það er margt sem spilar inn í það hvort erlendir leikmenni nái að standa sig í deildinni hérna heima. Menningarmunur, öðruvísi fótbolti, einangrun, tala ekki tungumálið o.s.frv.
Mörg lið í kringum okkur eru kannski með 7-8 erlenda leikmenn en það eru einungis örfáir þeirra sem eru virkilega að setja mark sitt á deildina og nánast undantekningalaust eru það leikmenn sem hafa verið í deildinni í nokkur ár . Það er margt sem þarf að ganga upp en þetta er oft ákveðið happdrætti.“

Hugmyndafræði okkar vekur athygli

Ungir Skagamenn hafa svo sannarlega fengið tækifæri í sumar og undanfarin sumur, það er jákvætt. Eiga stuðningsmenn liðsins kannski bara að vera sáttir við þá stöðu og vinna út frá því með væntingar?

„Jú, ekki bara í ár heldur síðustu ár. Það er einmitt það sem hugmyndafræðin sem við byggjum á gengur út á. Það er mikilvægt að setja þessa hluti í víðara samhengi. Nú hafa 10 leikmenn komið upp úr 2. flokki og spilað í Pepsi deildinni frá 2015. Margir með stór hlutverk og nokkrir orðnir burðarrásar liðsins. Fimm leikmenn hafa spilað með U-21. árs landsliðinu liðinu og fleiri hafa verið kallaðir til æfinga, 2 leikmenn fengið A landsleiki, Arnór Sigurðsson er kominn í atvinnumennsku. Allt eru þetta merki um að við erum á réttri leið. Þróunin á þessum þáttum er öll í þá átt.

Við höfum líka orðið var við að margir utan Akraness eru hrifnir af þessari stefnu okkar

Við höfum líka orðið var við að margir utan Akranes eru hrifnir af þessari stefnu okkar og við fáum margar fyrirspurnir frá öðrum félögum sem vilja forvitnast um hugmyndafræði okkar. Einn okkar aðal stuðningsmaður er Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari og ég ætla að leyfa mér að vitna í viðtal hans við Akraborgina í síðustu viku.

„Ég er hrikalega ánægður að Skaginn er kominn með sínu fyrstu stig, ég er mjög skotin í öllu þeir eru að gera uppá Skaga, þjálfarateymið og sérstaklega stjórnin hvernig þeir hugsa fótboltann og hvernig þeir eru að búa til leikmenn, hinsvegar mega þeir alveg velja sér önnur lið en ÍBV að taka sín fyrstu stig en ég er mjög ánægður að þeir fengu sín fyrstu stig og eru komnir á skrið vegna þess að ég hef verið hrikalega ánægður það sem þeir eru að gera uppá Skaga. Ég er viss um að það eru sum lið sem geta tekið þetta módel og reynt að herma eftir því – það er gríðarlega mikil hefð á Skaganum og það sem þeir eru að gera er eitthvað svo „júník“ og mörg stór félög ættu að horfa uppá Skaga og reyna að herma eftir því sem þeir eru að gera.”

Ég vona að Skagamenn hafi þolinmæði

Gunnlaugur bætir því við að árangur liðsins geti aldrei verið línulegur – hann fari upp og niður.

„Þróun og uppbygging liðsins gengur vel. Ég vona að Skagamenn hafi þolinmæði til að fylgja okkur í gegnum uppbyggingarfasann því stuðningur samfélagsins er gríðarlega mikilvægur í þessu tilliti. Ég tala nú ekki um þar sem við erum að reyna að byggja upp lið sem Skagamenn geta verið stoltir af; þ.e. með uppöldum leikmönnum. Þeirri uppbyggingu má ekki tefla í voða af skammtímasjónarmiðum.“

Við erum að reyna að byggja upp lið sem Skagamenn geta verið stoltir af

Peningar eru þungamiðja í getu íslenskra fótboltaliða – miðað við það fjármagn sem ÍA hefur úr að moða, er þá staðan bara eins og hún ætti að vera?

„Það er ekkert launungarmál að sum lið í deildinni er hægt að skilgreina sem atvinnumannalið, á meðan við og fleiri erum það ekki. Það þýðir þó ekki að við eigum ekki að setja markið hátt. Við stefnum auðvitað hærra, en til að ná hærra þurfum við að einbeita okkur að byggja grunninn. Ef við höldum rétt á spilunum þá getur ÍA komist í toppbaráttuna á komandi árum.

Líkamlegt ástand leikmanna/liðsins – er það undir pari? Miðað við hversu mörg færi andstæðingarnir skapa sér í hverjum leik þá virðist eitthvað vanta upp á snerpu, kraft og hraða. Ertu sammála því?

„Nei, ég get ekki verið sammála því. Vissulega má alltaf gera betur, en það er mitt mat að við höfum staðið faglega að líkamlegum undirbúningi liðsins í vetur. Við framkvæmdum reglubundnar mælingar til að fylgjast með framþróun okkar leikmanna og fengum meðal annars samanburðartölur frá norsku úrvalsdeildarliði. Að sjálfsögðu koma upp atvik þar sem leikmenn meiðast og missa þar af leiðandi úr tíma frá æfingum með neikvæðum afleiðingum á leikform þeirra.

Þá má ekki gleyma að það þarf líka snerpu, kraft og hraða til að skora mörk og skapa marktækifæri sem að við höfum svo sannarlega verið að gera, sérstaklega í lok leikja eins og svo oft í sumar.“

Tekur tíma að búa til topplið

Stuðningsmenn ÍA eru kröfuharðir -finnur þú fyrir því og er vinnuumhverfið erfitt fyrir þig/ykkur í þjálfarateyminu. Eða finnur þú fyrir stuðningi frá Skagamönnum?

„Já, almennt finnum við fyrir miklum stuðningi við þá hugmyndafræði sem við byggjum starfið á, og þann árangur sem hefur náðst nú þegar. Sumir Skagamenn eru þó örlítið óþolinmóðari en aðrir – og ég get alveg skilið það – en það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það tekur tíma til að búa til topplið og það er ekki skynsamlegt að hætta að synda í miðri á.

Hefur þú íhugað stöðu þína sem þjálfari og velt því fyrir þér hvort þú sért komin á endastöð með liðið?

„Nei það hef ég ekki gert. Við erum sannfærðir um að við erum á réttri leið í þessari uppbyggingu en gerum okkur jafnframt grein fyrir því að leiðin er hvorki bein né greið. Þegar maður hefur þessa sannfæringu fyrir því sem við erum að gera þá bara stendur maður af sér storminn – ef einhver er – og heldur áfram af fullum krafti. Það eru allir á einu máli um það og engan bilbug á okkur að finna. Við munum stíga upp.“

Engin örvænting í okkar herbúðum

Framhaldið og næstu leikir; hvernig hyggstu breyta stöðunni og snúa skipinu úr þessum öldudal?

Sumir Skagamenn eru þó örlítið óþolinmóðari en aðrir – og ég get alveg skilið það

„Það er engin örvænting í okkar herbúðum. Við höfum trú á verkefninu og leikmenn eru innstilltir í að bæta gengi liðsins. Uppskeran eftir 6 umferðir er einu stigi minna en sama tíma og árin 2015 og 2106 þannig að það er ekki nýtt að við byrjum mótið illa. En síðustu 2 tímabil höfum við rétt úr kútnum og við gátum við vel við unað með árangur bæði þessi tímabil. Við erum búin að byggja góðan grunn í liðinu og vinnum okkur inn í mótið núna eins og við höfum gert síðustu tvö ár. Við munum halda áfram okkar vinnu og verðum bara betri,“ sagði Gunnlaugur Jónsson.