Forseti Íslands gefur Norðurálsmótinu toppeinkunn

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, skrifar áhugaverðan pistil á fésbókina í dag. Þar fer hann yfir þá reynslu sem hann fékk af veru sinni á Akranesi sem foreldri á Norðurálsmótinu og einnig á Orkumótinu í Vestmannaeyjum. Skipuleggjendur mótanna fá hæstu einkunn frá Forsetanum eins og lesa má í pistlinum hér fyrir neðan.

Síðustu daga og vikur hef ég náð að vera í föðurhlutverki á tveimur fótboltamótum fyrir stráka, fyrst á Akranesi og svo í Vestmannaeyjum. Að svona miklum viðburðum kemur fjöldi fólks – þeir sem skipuleggja og undirbúa dæmið í lengri tíma og svo allir sem sjá um að allt gangi vel fyrir sig innan vallar sem utan þegar ballið er byrjað. Hverja liði fylgja svo þjálfarar og liðsstjórar og vösk sveit foreldra eða annarra forráðamanna. Allt þetta fólk á miklar þakkir skildar, að ekki sé minnst á drengina sem léku á als oddi og nutu lífsins, glaðir yfir góðum leik, stundum sárir yfir úrslitum en það stóð ekki lengi, enda gekk leikskipulagið á báðum mótum út á að strákarnir mættu jafningjum sínum. Það er lofsvert.

Þessi mót og önnur af sama tagi eru meðal þess sem gerir Ísland svo gott – og nefni ég það þótt maður hafi til öryggis þann sjálfsagða fyrirvara að margt má bæta í samfélaginu. En leyfum okkur samt að njóta þess sem vel er gert.

Uppi á Skaga og úti í Eyjum var mjög ánægjulegt að hitta hressa krakka og spjalla við hina eldri, meðal annars um þessi vel heppnuðu mót, gildi íþrótta og það sem ber að varast í þeim efnum. Þá má ekki síst nefna mikilvægi þess að leyfa öllum að vera með og njóta sín á eigin forsendum, láta fjárhag aldrei ráða úrslitum um það hvort börn geti verið í tómstundum, leyfa heilbrigðu keppnisskapi að koma fram og gera þeim sem skara fram úr kleift að sýna listir sínar og metnað, en alls ekki á kostnað hinna sem vilja líka vera með þótt þeir hafi ekki náð eins góðum tökum á íþróttinni.

Svo segir það sig líka sjálft að við 8-10 ára aldur sést alls ekki fyrir víst hverjir munu slá í gegn og hverjir ekki. Íþróttahreyfingin verður að gæta sín á því í öllu barna- og unglingastarfi að áhersla á afrek og árangur bitni ekki á hinni fögru hugsjón að leyfa öllum að vera með og hafa gaman af því að leika sér í íþróttum.

Á hliðarlínunni á Akranesi og í Vestmannaeyjum voru pabbar, mömmur og aðrir nær undantekningarlaust til sóma.

Það var helst að stöku „sérfræðingur“ freistaðist til að fjarstýra stráknum sínum með því að kalla „hlauptu upp kantinn“, „gefð‘ann fyrir núna“ og annað af því tagi sem fólk hrópar á veturna yfir enska boltanum og meistaradeildinni og hefur álíka mikil áhrif á gang leiksins – nema það rugli kannski blessuð börnin í ríminu og sé þá til hins verra.

En aftur: Bestu þakkir, kæru Skagamenn, Eyjamenn, strákar og fylgdarlið hvaðanæva af landinu! Þið megið vera stolt af ykkar hlut. Það var gaman að fá að vera með.