Valdís hefur aldrei komist hærra á heimslistanum í golfi

Skagakonan Valdís Þóra Jónsdóttir tók risastökk á heimslistanum sem er uppfærður vikulega.  Valdís Þóra fer upp um 88 sæti á milli vikna. Hún er í sæti nr. 526 en var áður í sæti nr. 612. Þetta er besta staða Valdísar Þóru á heimslistanum frá upphafi. Á þessu ári hefur hún farið upp um 236 sæti á heimslistanum.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR er í sæti nr. 184 en besti árangur hennar á þessu ári er 181. sæti. Ólafía Þórunn hefur náð bestum árangri allra íslenskra kylfinga á þessum lista atvinnukylfinga.

Staðan á heimslistanum er gríðarlega mikilvæg fyrir stöðu keppenda fyrir Ólympíuleikana 2020 í Tokýó í Japan.

Alls komast 60 kylfingar inn á Ólympíuleikana hjá báðum kynjum eða 120 keppendur samtals. Viðamikið kvótakerfi er í gangi varðandi þátttökurétt keppenda og er það gert til þess að sem flestar þjóðir eigi möguleika á að koma keppendum inn á ÓL.

Fimmtán efstu á heimslista karla og kvenna komast sjálfkrafa inn á ÓL 2020 en aðeins fjórir geta verið frá sama landi á þeim lista. Kvóti er á fjölda keppenda frá hverri þjóð og geta aðeins tveir að hámarki verið frá sama landi í sætum 16-59 á styrkleikalistanum.

Sem dæmi má nefna að á ÓL í Ríó de Janiero í Brasilíu árið 2016 komst Cathryn Bristow frá Nýja-Sjálandi inn á ÓL. Hún var í sæti nr. 446 þegar heimslistinn var uppfærður þann 11. júlí 2016 en það var síðasti möguleiki keppenda til þess að bæta stöðu sína á heimslistanum.

Á þeim tíma voru Ólafía Þórunn og Valdís Þóra Jónsdóttir í sætum nr. 714 og 731 á heimslistanum. Ólafía var því 268 sætum frá því að komast inn og Valdís Þóra var 285 sætum frá því að komast inn á ÓL.

Miðað við stöðuna hjá Ólafíu Þórunni núna þá væri hún í hópi þeirra sem kæmust inn á ÓL 2020.