Sundmaður ársins: Ágúst Júlíusson

Aðildarfélög ÍA hafa greint frá því hvaða einstaklingar koma til greina í kjörinu á Íþróttamanni Akraness 2017. Á næstu dögum verður stutt kynning á helstu afrekum íþróttafólksins úr hverri grein fyrir sig.

Á vef Akraneskaupstaðar geta íbúar Akraness tekið þátt í kjörinu og með því að smella hér þá getur þú tekið þátt:

Ágúst Júlíusson er sundmaður ÍA árið 2017. Hann er fæddur árið 1989. Ágúst átti eitt besta sundár ferils síns. Hann varð tvöfaldur Íslandsmeistari í 100m flugsundi, bæði í 25m og 50m laug. Ágúst varð þriðji í 100m flugsundi á Smáþjóðaleikunum í San Marino og hlaut silfur í 4x100m fjórsundi sem jafnframt var Íslandsmet. Hann tók þátt í Norðurlandameistaramótinu í Reykjavík í desember. Þar varð Ágúst fjórði í 100m flugsundi, nokkrum sekúndubrotum frá verðlaunasæti og fimmti í 50m flugsundi.

Á báðum þessum mótum var Ágúst fyrirliði íslenska landsliðsins. Ágúst fór upp um 260 sæti á heimslista FINA og er í dag í 364 sæti. Ágúst sýnir að með góðu skipulagi er hægt að vera í fullri vinnu, skóla og stunda afreksíþróttir á háu stigi. Ágúst Júlíusson er duglegur að vinna fyrir félagið og alltaf viljugur til að miðla af reynslu sinni, tala við yngri sundmenn og sýna þeim hvernig á að verða betri sundmaður.

Helstu afrek Ágústs á Íslandi á árinu:
Akranesmeistari, Sundmaður Akraness með flest FINA stig. Þrjú Akranesmet á árinu, tvívegis í 100m flugsundi, og eitt í 50m flugsundi. Bætti þar með sín eigin met; í 100m frá 2012 en í 50m frá 2016.
Ágúst setti Íslandsmet með íslenska landsliðinu í 4x100m fjórsundi á Smáþjóðarleikunum í San Marino sl. sumar. Þar var hann þátttakandi í boðsundssveitinni sem sló tíu ára gamalt Íslandsmet.
Ágúst varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari: 100m flugsundi bæði í 25m og 50m laug. Varð tvisvar í öðru sæti á Íslandsmeistaramóti í sundi; í 50m flugsundi í 50m laug og í 25m laug.

Ágúst tók þátt í Smáþjóðarleikunum í San Marino í júní 2017. Þar varð hann í þriðja sæti í 100m flugsundi og hlaut silfur í 4×100 fjórsundi eins og áður er getið. Ágúst var fyrirliði íslenska sundhópsins sem tók þátt í leikunum.
Á Norðurlandameistaramótinu í Reykjavík í desember varð Ágúst í fjórða sæti í 100m flugsundi, nokkrum sekúndubrotum frá verðlaunasæti og fimmti í 50m flugsundi einnig sekúndubrotum frá verðlaunasæti. Þar var Ágúst einnig fyrirliði íslenska landsliðsins.

Ágúst er einn af afrekssundmönnum Sundfélags Akraness en hópurinn fór í keppnisferð til Bergen í Noregi í maí sl. Þar komst hann í úrslit á afar sterku sundmóti í 100 m flugsundi á nýju Akranesmeti. Keppt var í 50 m laug.
Aftur hélt Ágúst í víking til Noregs þar sem strandhögg var gert í Kristjansand. Um afar sterkt mót var að ræða en þar komst Ágúst í úrslit bæði í 50 m og 100 m flugsundi. Keppt var í 25 m laug.

Ágúst er fremsti o.þ.m. hraðasti íslenski karlsundmaður í 50 og 100m flugsundi um þessar mundir og hefur verið um árabil. Alls hefur hann unnið 19 Íslandsmeistaratitla.