Velunnarar Arnars Dórs gera upp „skuldina“ með táknrænum hætti

Það gengur gríðarlega vel að safna í Minningarsjóð Arnars Dórs Hlynssonar. Þórður Már Gylfason eigandi Sansa, Team ´79 og ÍA standa að stofnun sjóðsins eins og greint var frá í þessari frétt á skagafrettir.is á dögunum.

Fjölmörg fyrirtæki ætla að styðja við bakið á þessu verkefni og einnig einstaklingar – og hafa margir notað fésbókina til þess að minna á þetta verkefni og safnað áheitum með þeim hætti.

Þórður Már segir í samtali við skagafrettir.is að þeir sem hafi stutt við Minningarsjóð Arnars Dórs geti gert upp „skuld“ sína með því að leggja féð með táknrænum hætti í golfsettið hans Arnars Dórs.

„Það verður opið hjá okkur í Sansa á laugardaginn frá 12-16 og þar verður boðið upp á kaffi og köku. Það er Brauða og Kökugerðin sem býður upp á kökuna – og það verður stór kaka get ég lofað.

Vinir og velunnarar Arnars Dórs geta því mætt hingað og lagt það sem safnast hefur í golfpokann hans – og við ætlum síðan að fara með golfpokann í bankann á mánudaginn og leggja inn á reikninginn.

Við viljum einnig bjóða fólki að koma með einhverja hluti sem minna á Arnar Dór og leggja þá á hilluna sem við höfum sett hérna hjá okkur,“ sagði Þórður Már.

Sansa, fyrirtæki Þórðar Más, leggur 750 kr. af hverjum matarpakka sem pantaður er í þessari viku í Minningarsjóð Arnars Dórs. Frestur til að panta rennur út á miðvikudaginn 10. janúar.

„Síðasta vika var sú besta frá upphafi, metvika, og ég vona að þessi vika verði ekki síðri til þess að efla minningarsjóð Arnars Dórs. Og að sjálfsögðu er einn af réttum vikunnar uppáhaldsfiskisúpa Arnars Dórs,“ bætti Þórður Már við.

 

Fyrir þá sem vilja leggja inn á minningarsjóð Arnars Dórs þá er þetta númerið á styrktarreikningnum:

552-14-350047

kt. 670169-2199