Ekki gleyma fræðslufundinum um Alzheimer í Garðakaffi

Sirrý Sif Sigurlaugsdóttir fræðslustjóri Alzheimersamtakanna mun halda kynningu á starfi félagsins hér á Akranesi fimmtudaginn 8. febrúar.

Fundurinn hefst kl. 17 og stendur til 18.30. Sirrý Sif er einnig félagsráðgjafi og mun hún kynna m.a. nýjustu þekkingu á málefnum fólks með heilabilunarsjúkdóma.

Tenglar samtakanna á Akranesi, Laufey Jónsdóttir og Heiðrún Janusdóttir, segja einnig frá hlutverki sínu á þessum fundi.

Það verður heitt á könnunni og allir velkomnir segir í tilkynningu frá Alzheimersamtökunum sem voru stofnuð árið 1985. Í fyrstu var nafnið á félaginu FAAS, félag áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúkra og annarra skyldra sjúkdóma.

Yfirlýst markmið félagsins við stofnun var að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna, efla samvinnu og samheldni aðstandenda með fræðslufundum og útgáfustarfsemi og auka skilning stjórnvalda, heilbrigðisstétta og almennings á þeim vandamálum sem þessir einstaklingar og aðstandendur þeirra eiga við að etja.

Markmið félagsins er enn það sama rúmum 30 árum síðar en í maí 2016 var nafni þess breytt í Alzheimerssamtökin.