Víkingur AK, sögubrot af aflaskipi og skipverjum

Bókaútgáfan Hólar hefur gefið út bókina „Víkingur, sögubrot af aflaskipi og skipverjum,“ sem rituð er af Haraldi Bjarnasyni en hann á að baki um fjörutíu ára feril sem blaða,- frétta- og dagskrárgerðarmaður, lengst af hjá RUV en einnig hjá héraðsfréttablöðum og tímaritum, ekki síst þeim sem tengd eru sjávarútvegi. Höfundurinn er fæddur og uppalinn á Akranesi og er af þeirri kynslóð sem segja má að hafi alist upp með aflaskipinu Víkingi.

Í bókinni segir frá aðdraganda að smíði togarans Víkings AK-100 en hann kom nýr til Akraness 21. október 1960 og skipinu er fylgt eftir allt þar til það fór í sína síðustu ferð til Grenå í Danmörku 11. júlí 2014 þar sem það var síðan rifið.

Í þessa rúmu hálfa öld var Víkingur gerður út undir sama nafni og númeri frá Akranesi, fyrstu árin sem togari en síðan sem fengsælt nótaskip. Í bókinni eru viðtöl við skipverja, sem á einhverjum tíma voru um borð í Víkingi en mislengi þó og ýmsar sögur eru sagðar tengdar skipinu.

Farið er yfir stöðu atvinnumála á Akranesi á þeim tíma sem hugmyndir komu upp um skipakaupin og bréfaskriftir útgerðarinnar við ráðamenn og peningastofnanir vegna smíði skipsins.

Í bókarlok er svo viðauki um stofnun og aðdraganda að byggingu Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness, sem lét smíða skipið og gerði það út þangað til Síldar- og fiskimjölsverksmiðjan var sameinuð HB&Co sem gerði út skipið þar til Grandi keypti HB%Co og til varð HB Grandi, sem gerði út Víking síðustu árin.

Þá er einnig stuttur myndskreyttur kafli um komu nýs Víkings AK-100 í desember 2015.

Víkingur var í rúma hálfa öld hluti af atvinnusögu Akraness og bókin á því talsvert erindi til Akurnesinga sem og alls áhugafólks um sjávarútveg og atvinnuþróun

Bókarkápu prýðir málverk af Víkingi eftir myndlistarmanninn Baska, Bjarna Skúla Ketilsson, frá Akranesi.

„Víkingur, sögubrot af aflaskipi og skipverjum“ er um 160 blaðsíður að stærð í stóru broti, litprentuð og rækilega skreytt myndum frá mörgum áhuga- og atvinnuljósmyndurum auk mynda frá skipverjum.

Víkingur var í rúma hálfa öld hluti af atvinnusögu Akraness og bókin á því talsvert erindi til Akurnesinga sem og alls áhugafólks um sjávarútveg og atvinnuþróun.

Bókin er nú fáanleg í helstu bókaverslunum auk þess sem hægt er að fá hana senda í pósti með því að senda nafn, heimilisfang og kennitölu á netfangið [email protected]

Þess má geta að laugardaginn 3. mars nk. verður bókarhöfundur að kynna bókina í Bókaverslun Eymundssonar á Dalbraut 1 á Akranesi milli kl. 12 og 14.