Arnar og Halla stofna nýtt fyrirtæki á Akranesi

Textaland ehf. hóf nýlega starfsemi með formlegum hætti. Fyrirtækið veitir fjölbreytta þjónustu á sviði ritaðs máls, m.a. textagerð, prófarkalestur og þýðingar fyrir fyrirtæki, stofnanir og háskólanema, svo eitthvað sé nefnt.

Stofnendur Textalands eru Arnar Óðinn Arnþórsson og Halla Sigríður Bragadóttir. Þau eru bæði upplýsingafræðingar og hafa áralanga reynslu af margs konar skrifum og vinnu með texta hjá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum.

„Grunnhugmyndin er að sameina þá þekkingu, reynslu og menntun sem við höfum aflað okkur í gegnum tíðina, og það sem við höfum gaman af að gera til að skapa okkur starfsvettvang hér á Akranesi. Þessi þjónusta er þó þess eðlis að viðskiptavinir okkar geta verið staddir hvar sem er á landinu eða í heiminum, ef því er að skipta,“ segir Arnar.

Þau eru bæði eftirvæntingarfull og tilbúin að takast á við þetta verkefni. „Við erum spennt fyrir þessu nýja hlutverki, enda hefur hvorugt okkar komið nálægt rekstri fyrirtækja áður. Við höfum fengið góð ráð, leiðsögn og stuðning hjá reynslumiklum vinum, rekstrarfólki og stjórnendum hér í bæ, sem og Uppbyggingarsjóði Vesturlandi og Nýsköpunarmiðstöð. Við erum vongóð um að Textaland vaxi og dafni á komandi árum,“ segir Arnar.

Arnar hefur skrifað og unnið með texta til opinberrar birtingar síðan 2006. Áður en hann stofnaði Textaland ehf. starfaði hann m.a. sem skjalastjóri og sérfræðingur hjá Norðuráli, deildarstjóri hjá Bókasafni Kópavogs og fulltrúi hjá Neytendastofu og Samkeppnisstofnun (nú Samkeppniseftirlitið).

Halla hefur sinnt fjölbreyttum störfum m.a. hjá Landspítalanum, Orkuveitunni og Símanum. Í dag starfar hún hjá Ritara ehf.
Textaland er staðsett í Landsbankahúsinu við Akratorg.