Pistill: Mikill kraftur í menningar – og listalífi Skagamanna

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar:

Gríðarlegur kraftur hefur einkennt menningar – og listalífið á Akranesi að undanförnu. Framboðið fjölbreytt og eftirspurnin mikil. Og þegar einhverjum tekst að fá gamla íþróttakennarann á Bjargi á tónleika þá er það fréttaefni.

Reyndar fékk hann miða gefins frá konunni sem hann hefur verið giftur í rúmlega hálfa öld. Hún er nefnilega að færa sig upp á skaftið með kór eldri borgara, FEBAN, á Akranesi.

En þessi pistill er skrifaður án pressu frá öldungunum sem sitja í ritstjórn Skagafrétta. Þannig að því sé haldið til haga.

Næmt tóneyra Þórólfs Ævars Sigurðssonar er til vitnis um að Kristín Eyjólfsdóttir og félagar hennar í FEBAN sungu ekki feilnótu á þessum tónleikum – líkt og aðrir listamenn sem komu þar fram.

Í raun er það mikið um að vera í menningar – og listalífi Skagamanna að það er verkefni að ná að sjá þá alla.

Tóninn var gefinn með Írskri menningarviku og s.l. föstudag var troðfullt út úr dyrum í Tónbergi þar sem tónleikarnir „Við tónanna klið“ fóru fram. Verkefnið var til heiðurs Óðni G. Þórarinssyni, tónskáldi og harmonikkuleikara.

Þar komu fram m.a.kór FEBAN, ásamt Tríói Rutar Guðmundsdóttur og hljómsveitinni Tamango. Frábær skemmtun að sögn þeirra sem voru viðstaddir.

Sýning NFFA og Tónlistarskólans, Með allt á hreinu, sló heldur betur í gegn í Bíóhöllinni. Lokasýningin fór fram s.l. Föstudag. Vel á þriðja þúsund manns sáu þessa sýningu en um 240 áhorfendur fylltu eitt besta tónleikahús landsins mörg kvöld í röð. Frábær sýning og var öllum til sóma sem að henni komu.

Smellur er næsta verkefnið sem verður á fjölum Bíóhallarinnar. Þar er á ferðinni nýr söngleikur úr smiðju kennaratríósins úr Grundaskóla. Frumsýningin verður í lok apríl og að þessari sýningu koma um 100 nemendur úr Grundaskóla með einhverjum hætti.

Báðir grunnskólarnir héldu frábærar árshátíðir nýverið. Þar lögðu nemendur allt í sölurnar fyrir gesti. Fjölmargar sýningar á báðum stöðum og aðsóknin mikil að venju.

Skagahljómsveitin Madre Mia kom Akranesi á kortið á ný í Músíktilraunum í Hörpunni – virkilega efnilegar tónlistarkonur þar á ferð. Og til hamingju með árangurinn.

Sá sem þetta skrifar fór á sýninguna „300 Brunahanar – stúdía í máli og myndum“ – sem var sett upp á Kirkjubraut 10. Það er eitt að láta sér detta það í hug að mynda alla brunahana á Akranesi – það er ótrúlegt að þeir Garðar Guðjónsson og Guðni Hannesson hafi framkvæmt þetta. Sýningin kom mér virkilega á óvart því þetta er skemmtilegt þema. Brunahanar eru merk fyrirbæri, gagnleg og mikið öryggistæki. Sögurnar sem sagðar voru af mismundi gerðum krydduðu sýninguna. Ég segi bara til hamingju með þetta allt saman Garðar og Guðni.

Guðni Hannesson og Garðar Guðjónsson.

Vignir Jóhannsson listamaður er með áhugaverða sýningu í Café Lesbókin við Akratorg. Þar er portrettmynd af Guðbjarti Hannessyni miðpunkturinn. Eins og kemur fram í þessari frétt. Vignir er eitt af stóru nöfnunum í íslenskri myndlist og vel þess virði að skoða hvað Skagamaðurinn hefur fram að færa.

Ekki má gleyma þeirri nýbreytni hjá Gamla Kaupfélaginu að bjóða upp á fjölbreyttar „kvöldvökur“ með reglulegu millibili. Skagamenn hafa sýnt þessu mikinn áhuga og nýverið var uppselt á eina slíka vöku þar sem bræðurnir Friðrik Dór og Jón Jónsson voru í aðalhlutverki. Það var líka vel mætt þegar Halldór Fjallabróðir, Sverrir Bergmann, Eyþór Ingi og Grafík voru með slíkar kvöldvökur. Fjörið heldur áfram og á morgun, miðvikudag fyrir Skírdag, verða þeir Stebbi Jak og Andri Ívars með Föstudagslögin, Bjartmar verður á ferðinni í lok mars og svona mætti lengi telja.

Kalman – listafélag hefur á undanförnum árum lífgað mikið upp á menningarlífið á Akranesi. Fjölbreytt dagskrá í boði með reglulegu millibili hjá listafélaginu sem tengist Kór Akraneskirkju sterkum böndum.

Eflaust er ég að gleyma einhverjum viðburðum sem hafa verið á dagskrá eða eru á dagskrá á næstunni.

Með þessum pistli vildi ég bara þakka fyrir framlag allra þeirra sem hafa séð um að skemmta okkur Skagamönnum að undanförnu – vel gert.