Faxabrautin lokuð rúma viku vegna niðurrifs efnisgeymslunnar

Faxabrautinni á Akranesi var lokað í dag föstudaginn 13. apríl og verður gatan lokuð fram til 21. apríl. Ástæðan fyrir lokuninni er sú að í dag verður hafist handa við að rífa niður efnisgeymsluna við Sementsverksmiðjuna. Af öryggisástæðum er mikilvægt að vegfarendur virði þessa ráðstöfun.

Á vef Akraneskaupstaðar kemur eftirfarandi fram.

„Niðurrif Sementsverksmiðjunnar hefur gengið ágætlega og eru framkvæmdir á undan áætlun. Líkur eru á því að búið verði að fella mannvirki verksmiðjunnar núna í apríl. Í framhaldinu verður unnið við að mylja steypu, hreinsa járn úr steypubrotum og koma þeim fyrir í sandgryfju. Brotmálmar verða unnir á athafnasvæði verktaka og væntanlega skipað út frá Akraneshöfn.“

x