Pistill: Það þarf fleiri ærslabelgi á Skagann!

Í þessum pistli ætla ég að viðurkenna „glæp“. Ég týndi nýju Stylo fótboltatakkaskónum sem keyptir voru alltof stórir í skóbúðinni Staðarfelli sumarið 1979. Ég grenjaði mikið til að fá gamla settið á Bjarginu til að „fatta“ hversu mikla þörf ég hafði fyrir þessa skó.

Jóhannes Eðvaldsson fyrirliði íslenska landsliðsins og Celtic í Skotlandi var í Stylo. Hann varð líka íþróttamaður ársins 1975. Mamma gaf sig og rölti með mér í Staðarfell. Pabbi sagði hinsvegar að þetta væri rugl. Hann var á þeirri skoðun að það væri nóg að ég ætti strigaskó. Það væri bara fínt á mölina og Langasand.

Eina parið sem var til var í Staðarfelli var nr. 42 en ég notaði nr. 37 á þessum tíma. Já ég var 1 m. og dvergur á hæð. Skórnir voru keyptir samt sem áður.

Ég var mjög stoltur af þeim og ég ákvað að vera bara alltaf í þessum takkaskóm sem pössuðu engan veginn á mig. Þeir „lúkkuðu“ vel og voru aðeins ógnvekjandi með glitrandi 18 millimetra áltakka í sólanum.

Þá er komið að því að játa glæpinn. Ég týndi þessum skóm þegar ég var að klifra í dekkjunum utan á Akraborgarbryggjunni ellefu ára gamall. Það var ekki mikið flot í skónum. Þeir sukku eins og steinn á bólakaf í Akraneshöfnina. Ég laumaðist heim á blautum sokkunum á Bjargið við Laugarbrautina. Mamma fattaði undir eins að skórnir voru týndir en það spurði enginn hvar ég hafði verið. Við vorum bara úti að leika. Nokkrir gaurar eða ærslabelgir? Við fundum okkur eitthvað að gera og margt af því var eftirminnilegt svo ekki sé meira sagt.

Í dag eru fjölmargir ærslabelgir til staðar á Akranesi og víðar. Kraftmiklir einstaklingar á öllum aldri. Þeir gera lítið af sér, og týna varla takkaskóm í klifri í dekkjum í Akraneshöfn.

Ærslabelgjunum sem draga að sér andann og blása frá sér hefur fækkað á undanförnum árum.

Afhverju og hversvegna veit ég ekki. Þarf kannski að fara í kaffi á ÞÞÞ og fá smá innsýn hjá Óla Þórðar. Hann sagði margt á dögunum sem vakti mig til umhugsunar.

Það er fréttaefni ef það sést til barns sem er að fara sér að voða á húsþaki á bílskúr.

Ég sá einn um daginn og hvatti hann óspart áfram. Hann horfði á mig eins ég væri geimvera. Furðulostinn en hélt samt áfram að stökkva.

Ég klappaði fyrir drengnum sem hljóp eins og fætur toguðu frá þessum furðulega sköllótta miðaldra kalli. Ég sakna þess að sjá ekki fleiri ærslabelgi á Akranesi.

Bæjarráð Akraness er á sama máli og ég. Ráðið samþykkti á dögunum að veita 2,5 milljónum kr. til kaupa á einum ærslabelg sem er um 100 fermetrar að stærð. Horft er til þess að börn og unglingar fái að kjósa um staðsetningu á ærslabelgnum. Horft er til svæða við Garðalund, Langasand og við tjaldsvæðið.

Ég legg hinsvegar til að bæjarráð horfi til framtíðar, og fjárfesti í fleiri en einum ærslabelg. Fjórir væru fín tala. Það er eftirspurn eftir ærslabelgjum víðsvegar um bæinn. Heildarkostnaður 10 milljónir. Þá þyrfti ekki að kjósa um hvar þeir ættu að vera. Það væri nóg af þeim.

Jöfnum þann kostnað út með því að fella strompinn og notum það fjármagn sem færi í viðhald á því mannvirki í að hvetja ærslabelgi á Akranesi til að hreyfa sig utandyra. Ekki er vanþörf á.

Og að lokum ekki segja gamla settinu á Bjarginu frá Stylo skónum – þeir kostuðu að ég held ¼ úr mánaðarlaunum kennarans. Það er efni í nýjan pistil.

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar. 

Jóhannes Guðlaugsson og Sigurður Elvar Þórólfsson, ærslabelgir.