Valdís Þóra byrjaði vel á sterku móti í Marokkó

Skagakonan Valdís Þóra Jónsdóttir byrjaði vel á Lalla Meryem Cup á LET Evrópumótaröðinni í golfi. Mótið fer fram á Royal Golf Dar Es Salam vellinum í Marokkó. Mótið er hluti af sterkustu mótaröð Evrópu hjá atvinnukylfingum í kvennaflokki.

Íslandsmeistarinn 2017 lék á einu höggi undir pari eða 71 höggi. Hún er sem stendur í fjórða sæti en Nicole Garcia frá Suður-Afríku er efst á -4 samtals.

Skor keppenda er uppfært hér. 

Fyrsti keppnisdagurinn er í dag 19. apríl og verða leiknir fjórir hringir á fjórum keppnisdögum. Úrslitin ráðast því sunnudaginn 22. apríl.

Mótið í Marokkó er sjötta mótið á þessu tímabili á LET Evrópumótaröðinni og hefur Valdís Þóra keppt á þeim öllum. Þess má geta að Valdís Þóra er íþróttamaður ársins 2017 á Akranesi.