Áhugavert þrívíddar-myndband ı svona er ástandið í Sigurfara

Í apríl á þessu ári fór fram mikil vinna við að skrásetja ástand kútter Sigurfara við Safnasvæðið í Görðum á Akranesi. Greint var frá verkefninu á fréttavefnum skessuhorn.is.

Norðmaðurinn Gunnar Holmstad dvaldi í fjóra daga á Akranesi þar sem hann myndaði Sigurfara í bak og fyrir. Hann notaði síðan myndirnar til að búa til þrívíddarlíkan af skipinu.

Kútterinn sem áður var bæjarprýði er illa farinn og orðinn að slysagildru. Gunnar hefur nú birt myndefni á fésbókarsíðu sinni þar sem hann sýnir útkomuna.

Námskeið í myndmælingu fór fram samhliða þessu verkefni. Þar mættu þrír landar Gunnars frá Noregi, einn frá Færeyjum og þrír Íslendingar.

Framtíð kútter Sigurfara er óljós en árið 2015 var samþykkt í bæjarráði Akraness að rífa skipið. Forstöðumanni Safnasvæðisins á Akranesi falið að gera áætlun um að taka skipið niður og fjarlægja.

Kútter Sigurfari er 85 smálesta tvímastra kútter, smíðaður 1885 í Englandi og keyptur til Íslands 1897, en áður var hann gerður út frá Hull. Hann var gerður út til handfæraveiða á Faxaflóa og þótti mikið happaskip. Skipið var selt til Færeyja 1920 og komst þangað eftir að hafa lent í mánaðarlöngum hrakningum á sjó milli landanna. Frá Færeyjum var skipið gert út til 1970 en 1974 var báturinn aftur keyptur til Íslands að undirlagi Jóns M. Guðjónssonar prests á Akranesi.