Nýr keppnisbúningur ÍA vekur athygli – hvað finnst þér?

Fyrsti leikur ÍA í Inkasso-deild karla fer fram laugardaginn 5. maí á Akranesi.

Leikurinn átti að fara fram á Norðurálsvellinum en tekin hefur verið ákvörðun um að leika í Akraneshöllinni.

Heiðrún Sara Guðmundsdóttir og Hafþór Pétursson – leikmenn ÍA í nýja búningnum. Mynd/Ágústa Friðriksdóttir.

Ástæðan er sú að ekki tekst að ljúka við framkvæmdum á Norðurálsvellinum fyrir næstu helgi, en tyrfa þarf stórt svæði fyrir aftan annað markið.

ÍA er spáð góðu gengi í Inkasso-deildum karla- og kvenna. Karlaliðinu er spáð sigri og kvennaliðið endar í þriðja sæti ef spár forráðamanna liða í Inkasso-deildinni ganga eftir.

ÍA liðið mun leika í nýjum ERREA búningum í sumar. Liturinn er að sjálfsögðu gulur og þykir hann minna á litinn sem var á búningum ÍA snemma á sjöunda áratug síðustu aldar. Karlaliðið frumsýndi búninginn í góðum 4-1 sigri liðsins í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins þann 30. apríl s.l.



Nýir samstarfsaðilar eru á búningnum og aðalstyrktaraðilinn, Norðurál, er með nýja útgáfu af merki fyrirtækisins framan á búningunum.

Samstarfsaðilar KFÍA sem eru með auglýsingar á keppnisbúning mfl. karla og kvenna sumarið 2018 eru: Norðurál, Nína, Margt Smátt, Stay West, Netgíró, Bílaleiga Akureyrar, OLÍS og KIA.

Hvernig finnst þér nýr keppnisbúningur ÍA fyrir tímabilið 2018?