Bylting í skólphreinsun á Akranesi með nýrri hreinsistöð

Ný hreinsistöð skólps var tekin í notkun á Akranesi í gær og bætist bærinn þar með í hóp þeirra sveitafélaga sem uppfylla kröfur um skólphreinsun samkvæmt reglugerð. Með hreinsistöðinni er stigið stórt skref í umhverfismálum Akurnesinga. Þetta kemur fram á vef Veitna.

Fyrir uppbyggingu fráveitunnar rann óhreinsað skólp út um 8 meginútrásir, nálægt fjöruborði. Nú er skólpi veitt frá þessum útrásum og í hreinsistöð. Uppbygging kerfisins fól í sér, auk hreinsistöðvarinnar, uppsetningu á sex nýjum dælubrunnum sem dæla skólpinu frá gömlu útrásunum í átt að hreinsistöðinni, nokkrum kílómetrum af nýjum lögnum á landi auk 1,5 km sjólögn frá hreinsistöðinni.

Stöðin hreinsar öll gróf efni úr skólpinu auk þess að sía frá sand og fitu. Skólpinu er því næst dælt um hálfan annan kílómetra út í sjó.

Veitur þjóna 60% landsmanna

Hönnun mannvirkisins hófst árið 2006 og var smíði þess boðin út í áföngum 2007 og 2008. Árin 2008-2010 voru mannvirkin byggð, dælubrunnar settir niður og megnið af lagnavinnu klárað. Erfið fjárhagsstaða Orkuveitu Reykjavíkur í kjölfar hrunsins varð til þess að frekari nýframkvæmdum var frestað. Þráðurinn var svo tekinn upp á Akranesi árið 2015 þegar lögð var lögn í sjó og í dag sjáum við fyrir endann á þessari stórframkvæmd.

Veitur annast uppbyggingu og reka fráveitukerfi fyrir um 40% landsmanna, í Reykjavík, Borgarnesi, á Akranesi, Bifröst, Hvanneyri, Varmalandi og í Reykholti auk þess að hreinsa skólp frá fráveitum í Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og hluta Garðabæjar í hreinsistöðvum sínum við Ánanaust og Klettagarða.

Í Borgarbyggð reka Veitur fjórar tveggja þrepa hreinsistöðvar þar sem, auk grófhreinsunar, fer fram niðurbrot á lífrænum efnum áður en hreinsuðu skólpi er veitt í viðkvæman viðtaka.Veitur þjóna þannig um 60% landsmanna með fráveitu en 77% landsmanna býr við skólphreinsun er uppfyllir kröfur samkvæmt reglugerð.



Góð umgengni mikilvæg

Mannvirki sem þetta kostar mikinn pening, bæði í byggingu og rekstri. Það skiptir máli að umgangast það á réttan hátt svo það komi að sem mestu gagni. Undanfarin misseri hafa Veitur staðið fyrir átakinu Blautþurrkan er martöð í pípunum sem ætlað er að vekja athygli á því að klósett eru ekki ruslafötur. Í þau eiga ekki að fara blautþurrkur, bindi, eyrnapinnar, tannþráður eða aðrar hreinlætisvörur. Á hverjum degi fáum við gríðarlegt magn af rusli í hreinsistöðvarnar okkar. Mikil vinna og kostnaður felast í því að hreinsa dælur og farga ruslinu. Með því að minnka magn óæskilegra hluta og efna sem við sendum í fráveituna getum við lækkað kostnað verulega. Til viðmiðunar þá sturtum við fjórfalt meira niður af slíku en Svíar.

Fita og olía á heldur ekki heima í fráveitukerfinu. Fita og blautklútar eru til dæmis slæm blanda. Úr þeim efnivið geta orðið til svokallaðir fituhlunkar, eða ”fatbergs” eins og þeir heita upp á ensku. Þeir eru stórt vandamál í fráveitukerfum víða um heim og hér á landi líka. Málning, leysiefni, lyf og önnur efni eiga ekkert erindi í niðurföllin, því skal skila í endurvinnslu.