Skagakonan Líf Lárusdóttir vakti athygli á ársfundi Samáls

Gámaþjónustan gerðist í haust eitt af samstarfsaðilum Samáls í verkefni sem bar yfirskriftina „Endurvinnum álið“.

Markmið verkefnisins var að fá almenning til að skila álinu í sprittkertunum til endurvinnslu og efla vitund þjóðarinnar um mikilvægi þess að endurvinna það ál sem fellur til á heimilum og hjá fyrirtækjum,“ segir Skagakonan Líf Lárusdóttir við Skagafréttir sem hélt áhugavert erindi á ársfundi Samáls nýverið.

Líf lagði sitt af mörkum með því að segja frá verkefninu „Endurvinnum álið“. Mynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson.

„Verkefnið var í stuttu máli þannig að öllu álinu var safnað saman. Hönnunarteymi voru fengin til þess að hana úr því nytjarvörur fyrir heimili. Þessar vörur voru til sýnis á ársfundinum þar sem meðal annars var fjallað um verkefnið. Ég sagði frá okkar þátttöku ásamt því að tala um frekari tækifæri sem við upplifum að séu fyrir hendi í endurvinnslumálum hér á landi,“ segir Líf en hún starfar sem verkefnastjóri sölu- og markaðsmála hjá Gámaþjónustunni.

„Starfið mitt felst í almennum kynningar- og markaðsmálum fyrirtækisins.

Þetta er mjög fjölbreytt starf. Ég svara viðskiptavinum á Facebook, útbý bása á vörusýningu og hanna kynningarbæklinga. Það er enginn dagur eins og ég fæ að nýta mína menntun í botn sem er frábært.“

 

Auglýsing



Líf segir að það hafi verið skemmtileg áskorun að koma fram á ársfundinum og tala fyrir framan stóran hóp af fólki.

„Ég var stressuð, ég viðurkenni það alveg, og þá sérstaklega rétt í byrjun þegar mér var litið yfir allan fjöldann í salnum. En það vandist vel og ég fæ vonandi fleiri tækifæri til að gera meira af þessu. Þetta var fín æfingin og einhver sagði að æfingin skapi meistarann. Mér fannst fróðlegt að spjalla við fundargesti eftir erindið. Það er upplifun margra að flokkunarkerfin mættu vera samræmdari á milli sveitarfélaga. Það var því áhugavert að fá þeirra sýn á þessi mál.“

Samtök álframleiðenda á Íslandi (Samál) eru hagsmunasamtök álfyrirtækja á Íslandi, stofnuð þann 7. júlí 2010. Markmið samtakanna er að vinna að hagsmunum og framþróun íslensks áliðnaðar og efla upplýsingastreymi og fræðslu um áliðnaðinn.

Líf segir að mikið af mikið af áli berist til móttökustöðva Gámaþjónustunni um land allt.

„Við komum álinu áfram til endurvinnslu hjá fyrirtækjum sem sérhæfa sig á þessu sviði. Á móttökustöðvum okkar um allt land var komið fyrir sérstöku íláti merktu verkefninu „Endurvinnum álið“ en þar gat fólk komið með álbikara undan sprittkertum sem til féllu á heimilum. Ásamt því að geta komið til okkar með þessa bikara, þá var í boði að setja álið í endurvinnslutunnunna okkar sem er lausn sem hefur verið í boði hjá okkur fyrir almenning á okkar stærstu starfsstöðvum í rúm 10 ár.“

Ál hefur þann eiginleika að það er eftirsótt til endurvinnslu. Líf bendir á að það séu ekki margir flokkar endurvinnsluefna sem hægt er að nýta beint til endurvinnslu á sömu vöru og komið er með til endurvinnslu.

„Sem dæmi um það eru áldósir, sem safnað hefur verið til endurvinnslu hér á landi síðan árið 1989. Á þeim tæpu 30 árum sem Endurvinnslan hf. hefur starfað, þá hafa tugþúsundir tonna af áldósum verið fluttar úr landi til endurvinnslu. Erlendis eru sérhæfðar álbræðslur sem taka við notuðum áldósum og búa til ál sem nýtanlegt er aftur í dósir. Það er mikil áhersla er á það í heiminum í dag að hugsa um vöru frá vöggu til grafar. Svokallað hringrásarhagkerfi. Það þarf að eiga sér stað samtal milli vöruhönnuða og vöruframleiðenda um hvernig hægt er að standa að framleiðslu vöru þannig að hún sé mjög vel hæf til endurvinnslu þegar líftími hennar er á enda.

Auglýsing



Það sem við höfum fundið fyrir, bæði í kjölfar þessa verkefnis og á undanförnum misserum og árum er að fólk upplifir skort á ákveðinni samræmingu í flokkunarmálum á Íslandi. Almennt lærir fólk á flokkunarkerfið í sínu sveitarfélagi en getur orðið ráðvillt á öðrum stöðum. Eitt dæmi um þetta fékk ég bara í þessari viku frá aðila búsettum á höfuðborgarsvæðinu sem leigði sér íbúð útá landi yfir helgi. Eftir helgina þegar kom að því að pakka saman vissi hann ekki í hvorn fótinn hann ætti að stíga varðandi flokkun svo hann brá á það ráð að keyra með sorpið aftur heim til sín. Þetta kerfi getur því virkað letjandi á fólk varðandi flokkun en við finnum fyrir því að þekking leikur lykilhlutverk þegar kemur að flokkun,“ segir Líf Lárusdóttir við skagafréttir.is

Auglýsing