Sansabíllinn verður á ferðinni á Norðurálsmótinu

„Við feðgar verðum á vaktini alla helgina, og þetta flokkast undir skyndiákvörðun vikunnar,“ segir Þórður Gylfason hjá Sansa.is við skagafrettir.is. Þórður eða bara „Doddi Gylfa“ eins og Skagamenn kalla kappann ætlar að bjóða upp á nýjungar í veitingaflóru Skagamanna á meðan Norðurálsmótið fer fram.

„Við ætlum að keyra Sansabílinn út um allt og selja safa og salöt. Það er ýmislegt í boði. Frá 8-10 verður boðið upp á chiagraut með berjum, banana og engiferskot – á eitt þúsund krónur. Og það er fjöldi fólks nú þegar búið að panta þessa vöru.

Eftir morgunmatinn verðum við með fjórar tegundir af heilsusafa, og tvær gerðir af salat-réttum. Sous vide eldað kjúklingasalat og vegansalat með kínóa! Alfreð Freyr Karlsson í Brauða og Kökugerðinni sér til þess að allir fái almennilegt brauð með og það er vægast sagt geggjað,“ bætir Doddi við.

Hjörtur Leó Þórðarson verður einnig í aðalhlutverki á Sansabílnum. Hann ætlar að hringja veisluna inn með kúabjöllunni úr Grundaskóla. „Litli gaurinn minn getur ekki beðið eftir að fá að hringja inn Sansastemninguna á Norðurálsmótinu,“ segir Þórður Gylfason að lokum.

 

Auglýsing