Garðar kveður ÍA – „Þakka stuðningsmönnum fyrir ótrúleg ár“

Garðar Gunnlaugsson sendir ÍA góðar kveðjur á fésbókinni en framherjinn þaulreyndi mun ekki leika með ÍA í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð.

„Eftir miklar vangaveltur höfum ég og minn ástkæri klúbbur, ÍA, ákveðið að nú skilja leiðir. Vegna vinnu þarf ég að flytjast búferlum til Reykjavíkur og tel ég það henta mun betur, vinnulega, fótboltalega og fjölskyldulega að ég stundi mína knattspyrnuiðkun í Reykjavík eða nágrenni. Mig langar að þakka ÍA og öllum sem koma að klúbbnum fyrir ótrúleg ár. Betri liðsfélaga er erfitt að finna og mun ég sakna þeirra mikið. Stuðningsmönnum ÍA vill ég svo færa sérstakar þakkir fyrir að hafa staðið við bakið á mér öll þessi ár“ sagði Garðar í samtali við heimasíðu Knattspyrnufélags ÍA.

Hér fyrir neðan er tilkynning frá Knattspyrnufélagi Akraness:

Knattspyrnufélag ÍA (KFÍA) og Garðar Bergmann Gunnlaugsson hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um að endurnýja ekki samstarf milli aðila þar sem samningur Garðars við félagið rennur út um næstu mánaðarmót.

Garðar Bergmann Gunnlaugsson hóf feril sinn í meistaraflokki karla 2001 þegar hann varð Íslandsmeistari með ÍA og bikarmeistari 2003 þegar hann skoraði sigurmark gegn FH í úrslitaleik. Hann spilaði einnig í nokkur ár með Val og var í atvinnumennskunni þar sem hann spilaði meðal annars með Norrköping í Svíþjóð og CSKA Sofíu í Búlgaríu.

Á ferli sínum með KFÍA spilaði Garðar 301 leik og skoraði 132 mörk. Hann varð markakóngur Pepsi-deildar karla 2016, fyrsti Skagamaðurinn til að gera það í 15 ár. Hann á að baki glæstan feril þar sem hann hefur verið góður og traustur liðsmaður og skorað mörg mikilvæg mörkin.

KFÍA vill nota tækifærið og þakka Garðari Bergmann Gunnlaugssyni kærlega fyrir langan og farsælan knattspyrnuferil hjá ÍA og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.