Bjarni Ólafsson AK fékk 800 tonn á einum klukkutíma


„Það er óhemja af síld hérna,“ segir Skagamaðurinn Gísli Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK í viðtali sem birt er á vef Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Áhöfn Bjarna Ólafssonar AK landaði 800 tonnum af makríl í gær í Neskaupstað. Að löndun lokinni sigldi skipið úr höfn til síldveiða á miðunum út við Austfirði. Gísli segir að hann hafi ekki upplifað slíka veiði áður á svona stuttum tíma.

„Við fengum þetta norðan í Glettinganesgrunni og það var einungis dregið í rúman klukkutíma. Það er óhemja af síld hérna. Þetta hol gaf 800 tonn og ég man ekki eftir því að hafa fengið svona mikið í holi þegar dregið er í svona stuttan tíma. Þetta hol var fyrsta holið með nýju trolli frá Hampiðjunni og það reyndist svo sannarlega vel. Þetta er stór og falleg síld og hún ætti að henta ágætlega til vinnslu. Við þetta bætist að veiðisvæðið er einungis í þriggja klukkustunda siglingarfjarlægð frá Norðfirði. Þetta getur ekki verið betra.