Ólafur Adolfsson vill fá Hvalfjarðarsveit í viðræður um sameiningu


Ólafur Adolfsson, sem situr í bæjarstjórn fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, bauð Hvalfjarðarsveit til sameiningarviðræðna á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fram fór í síðustu viku. Þetta kemur fram á fréttavef RÚV.

„Ég hef að gamni líkt þessu við það að við erum búin að vera skotin í hinni stelpunni í sveitinni í mörg ár og ástin hefur ekki verið alveg endurgoldin fram til þessa,“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi. Hann segir Ólaf endurspegla viðhorf sem hefur ríkt lengi á Akranesi.

Samvinna á milli sveitarfélaganna


Samvinna er á milli sveitarfélaganna tveggja um ýmsa þjónustu. Samningur um félagsþjónustu, barnavernd og málefni fatlaðra var undirritaður á milli sveitarfélaganna í lok júní til eins árs. Eins standa sveitarfélögin saman að rekstri Tónlistarskóla Akraness og hafa gert í lengri tíma.

„Það eru engar formlegar viðræður við Hvalfjarðarsveit, en hver veit nema einhverskonar tilhugalíf eigi sér stað þegar og ef þetta er samþykkt,“ segir Björgvin Helgason, oddviti sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar í samtali við RÚV.

Hver er þín skoðun á hugmyndum um að sameina Akranes og Hvalfjarðarsveit?