Stórsigur í Eistlandi hjá ÍA/Kára/Skallagrím – lokatölur 12-1


Það var mikið markaregn í Eistlandi í dag þegar lið ÍA/Kára/Skallagríms gjörsigraði lið Levadia Tallinn í Unglingadeild UEFA.

Lokatölur 12-1 og samanlagt 16-1 í báðum leikjunum en fyrri leikurinn fór 4-0 fyrir ÍA/Kára/Skallagrím á Akranesvelli.

Staðan var 6-0 í hálfleik og leikmenn 2. flokks ÍA/Kára/Skallagríms héldu áfram í síðari hálfleik og bættu við 6 mörkum. Leikmaður heimaliðsins var rekinn af velli fyrir gróft brot í upphafi síðari hálfleiks.

Eyþór Aron Wöhler skoraði fjögur mörk og Gísli Laxdal Unnarsson var með þrennu.

Viðtal við Eyþór og Sigurð Hrannar neðst í fréttinni:

Þetta er í fyrsta sinn sem lið frá Íslandi kemst í gegnum 1. umferð Unglingadeildar UEFA en Breiðablik og KR eru einu félögin sem hafa tekið þátt áður í þessari keppni.

ÍA/Kári/Skallagrímur mætir enska liðinu Derby County í 2. umferð og fara leikirnir fram 6. og 27. nóvember.

ÍA/Kári/Skallagrímur tekur þátt í þessari keppni á þessu ári þar sem liðið varð Íslandsmeistari í 2. flokki haustið 2018.

Liðið varði Íslandsmeistaratitilinn 2019 og verður því með í þessari keppni á næsta ári einnig.

Mörk ÍA/Kára/Skallagríms:

0-1 Eyþór Aron Wöhler (‘1)
0-2 Eyþór Aron Wöhler (‘7)
0-3 Gísli Laxdal Unnarsson (’13)
0-4 Sigurður Hrannar Þorsteinsson (víti ’20)
0-5 Eyþór Aron Wöhler (’30)
0-6 Eyþór Aron Wöhler (’31)
0-7 Gísli Laxdal Unnarsson (’62)
0-8 Elís Dofri Gylfason (’63)
0-9 Gísli Laxdal Unnarsson (’65)
0-10 Aron Snær Guðjónsson (’77)
0-11 Finnbogi Laxdal Aðalgeirsson (’85)
1-11 Herman Öunas (’86)
1-12 Brynjar Snær Pálsson (’88)