Kennarar við FVA hafna samstarfi við núverandi skólameistara


Kennarar við Fjölbrautaskóla Vesturlands hafna samstarfi við núverandi skólameistara og kveðast einvörðungu munu sinna kennsluskyldum og samstarfi við nemendur þar til nýr skólameistari hefur verið skipaður.

Þetta kemur fram í ályktun sem var samþykkt á félagsfundi Kennarafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands sem fram fór 21. október síðastliðinn. Áður höfðu kennarar við skólann lýst vantrausti á núverandi skólameistara.

Frá þessu er greint á vef Kennarasambands Íslands.

Ályktun félagsfundarinar hljóðar svo í heild:

„Félagsfundur kennarafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi haldinn 21. október 2019 samþykkir eftirfarandi ályktun:
Í beinu framhaldi af vantraustsyfirlýsingu kennara á skólameistara FVA, samþykkir félagsfundurinn að kennarar við FVA munu áfram sem hingað til sinna kennslu og skyldum sínum gagnvart nemendum skólans. Kennarar hafna hins vegar öllu samstarfi við núverandi skólameistara og lýsa því yfir að þar til nýr skólameistari hefur verið skipaður munu kennarar eingöngu sinna kennsluskyldum sínum og samstarfi við nemendur.“

Starf skólameistara við Fjölbrautaskóla Vesturlands var auglýst laust til umsóknar síðsumars. Fjórir sóttu um starfið og var umsóknarfrestur 1. september síðastliðinn. Skipunartími núverandi skólameistara rennur út um áramót en skólameistarinn hefur höfðað mál á hendur ríkinu vegna ákvörðunar menntamálaráðherra um að auglýsa embættið laust til umsóknar. Aðalmeðferð í málinu fer fram í Héraðsdómi Reykjavikur 4. nóvember. Menntamálaráðherra hefur sagt sig frá málinu og óskað eftir því við forsætisráðherra að öðrum verði falið að skipa nýjan skólameistara.


http://localhost:8888/skagafrettir/2019/09/05/fjorir-umsaekjendur-um-skolameistarastodu-fva/
http://localhost:8888/skagafrettir/2019/10/07/kennarar-i-fva-lysa-yfir-vantrausti-a-skolameistara/
http://localhost:8888/skagafrettir/2019/10/22/baejarstjorn-lysir-yfir-thungum-ahyggjum-af-stodu-mala-i-fva/