ÍA/Kári/Skallagrímur mætir sterku liði Derby County á Víkingsvelli á miðvikudag


Íslandsmeistaralið ÍA/Kára/Skallagríms í 2. flokki karla í knattspyrnu hefur æft af krafti á undanförnu vikum fyrir stórverkefni liðsins í Evrópukeppni UEFA í þessum aldursflokki.

Mótherjarnir eru enska liðið Derby County sem fagnaði Englandsmeistartitlinum í U-18 ára úrvalsdeildinni á Englandi.

Fyrri leikurinn er á miðvikudaginn á Víkingsvellinum í Fossvogi í Reykjavík og hefst hann kl. 19:00.

Elfa Björk Sigurjónsdóttir, einn dyggasti stuðningsmaður ÍA, hefur grúskað heilmikið til þess að afla upplýsinga um lið Derby County.

Hér fyrir neðan eru hugleiðingar Elfu um lið Derby County.


Í framhaldi af mögnuðum árangri 2.fl.kk hjá ÍA fór ég aðeins að velta því fyrir mér hvernig stendur á því að næsti andstæðingur þeirra, Derby, er í UEFA Youth League sem Englandsmeistari.

Smá skoðun leiddi í ljós að það gerðu þeir með því að standa uppi sem sigurvegarar „U18 Premier league“ í maí síðastliðnum. Sú deild er leikin í tveimur riðlum, norður og suður. Derby höfðu betur en Liverpool í norðurriðlinum, en aðeins sem nam markamun, en þeir skoruðu að meðaltali 2,86 mörk í leik en fengu á sig 1,23. Unnu þó reyndar Liverpool bæði heima og heiman.

Þeir fóru svo í úrslitaleik gegn Arsenal, sigurvegara suðurriðilssins, og unnu hann 5-2. Bæði mörk Arsenal í leiknum skoraði Bukayo Saka, sem er mögulega orðinn okkur Íslendingum nokkuð þekktari í dag en hann var þá, en hann hefur spilað 6 leiki fyrir aðallið Arsenal, í úrvalsdeildinni, Evrópudeildinni og Deildarbikarnum.

Markaskorarar Derby í leiknum voru Archie Brown sem skv. Transfermarkt síðunni er vinstri bakvörður, en skoraði þrennu í leiknum ásamt því að leggja upp eitt mark fyrir Morgan Whittaker, sem skoraði hin tvö mörk liðsins. Transfermarkt staðsetur hann á hægri kantinum en þó einnig þannig að hann geti spilað hvar sem er í sóknarlínunni.

Morgan þessi var raunar aðalmarkaskorari liðsins á tímabilinu, skoraði 20 mörk og átti 12 stoðsendingar í 27 leikjum. Báðir tóku þeir þátt í fyrri leiknum gegn Minsk, sem Derby sló út á leið sinni að mæta okkar strákum, og hafa einnig verið að fá tækifæri í Premier League 2 (sem er U23 keppni), Whittaker hefur einnig komið við sögu í 2 leikjum Derby í Deildarbikarnum.

Til gamans eru hér highlights úr úrslitaleik Derby og Arsenal: