„Vona að dómur þessi verði fordæmisgefandi á landsvísu“


„Ég fór í þessa vegferð til þess eins að vekja athygli á og fá úr því skorið hvort menntun og reynsla skiptu virkilega ekki máli í svona ráðningarferli yfirleitt. Á þetta líka við um aðra umsækjendur sem ekki fengu stöðuna enda við þrír allir með meiri reynslu og menntun á þessu sviði,“ segir Indriði Jósafatsson í færslu sem hann skrifar á fésbókarsíðu sína.

Á dögunum féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem að Akraneskaupstað er gert að greiða Indriða miskabætur vegna máls sem hann höfðaði gegn Akraneskaupstað vegna ráðningar í stöðu forstöðumanns íþróttamannvirkja á Akranesi.

Pistill Indriða um málið er í heild sinni hér fyrir neðan.

Af gefnu tilefni.

Þið sem þekkið mig vitið að ég hef ríka réttlætiskennd og í störfum mínum hingað til hef ég alltaf viljað að réttlæti ráði gjörðum sérstaklega þegar skattgreiðendur eiga að treysta starfsmönnum sínum.

Indriði Jósafatsson.

Ég sótti um spennandi starf á Akranesi fyrir tveim árum eða svo og komst í fjögurra manna úrtak. Allt gekk vel og viðtölin voru nákvæm, eins og þau væru að sækja þekkingu til mín vegna reynslu minnar af stjórnun og erfiðum starfsmannamálum sem jú eðlilegt er. Þegar ég fæ svo ekki stöðuna með mína reynslu og stjórnunarmenntun, heldur umsækjandi sem hafði litla stjórnunarreynslu í þessum geira miðað við mig og aðeins BA menntun en ekki MA í stjórnun eins og ég var mér algjörlega misboðið og ákvað að kæra þessa ráðningu.

Í umbeðnum gögnum um ráðningarferlið sem komu loksins 9 mánuðum seinna kom í ljós að menntun og reynsla var aðeins metin í ráðningarferlinu 30% og viðtalið 70% án þess að það væri tekið sérstaklega fram fór mig að gruna að þarna væri ráðning í gangi sem væri stjórnað af sveitarstjórnarfulltrúa, starfsmönnum bæjarins er sáu um ráðningarferlið eða bæjarstjóra sem ber jú endanlega ábyrgð á slíku ferli með undirskrift sinni.

Slík vinnubrögð eru ekki í mínum anda og það skýrir kæru mína sem vannst í Héraðsdómi Reykjavíkur nú um daginn. Ég tek skýrt fram að kæra þessi snýr á engan hátt að þeim er fékk starfið og óska ég henni að sjálfsögðu alls hins besta í áframhaldandi starfi, kæra mín breytir þar engu sk. lögum.

Ég fór í þessa vegferð til þess eins að vekja athygli á og fá úr því skorið hvort menntun og reynsla skiptu virkilega ekki máli í svona ráðningarferli yfirleitt. Á þetta líka við um aðra umsækjendur sem ekki fengu stöðuna enda við þrír allir með meiri reynslu og menntun á þessu sviði.

Nú liggur það fyrir að þarna voru ekki eðlileg vinnubrögð viðhöfð hjá sviðstjórum bæjarins og ráðning þessi saknæm og ólögmæt eins og segir í dómi. Aðalmálið fyrir mér er að nú hefur þetta verið staðfest fyrir dómi hvað svo sem núverandi sveitarstjórn gerir í því og forvitnilegt verður að fylgjast með.

Ég vona að dómur þessi verði fordæmisgefandi á landsvísu í þessum geira varðandi slík ráðningarferli og ráðningar og við þar með bætum samfélögin með faglegri vinnubrögðum starfsmanna þess.

http://localhost:8888/skagafrettir/2019/11/27/akraneskaupstadur-tharf-ad-greida-miskabaetur-vegna-radningar-forstodumanns-ithrottamannvirkja/