Töluverð aukning í fíkniefnamálum – „allskyns ,„skítur“ til sölu hér á landi“

Töluverð aukning hefur verið á fíkniefnamálum hjá lögregluembættinu á Vesturlandi. Það sem vekur athygli og óhug er hversu langt söluaðilar ganga í því að blanda saman allskonar lyfjum og „skít“ til þess að drýgja efnin.

Þetta kemur fram í færslu á fésbókarsíðu lögreglunnar.

Um er að ræða mál þar sem aðilar eru uppvísir að því að hafa fíkniefni í sínum fórum eða hafa verið stöðvaðir í akstri og eru grunaðir um að vera undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.
Sem dæmi um hvað við erum að fást við þá fengum við niðurstöðu nýlega frá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði hjá Háskóla Íslands sem efnagreindi fyrir okkur hvítt duft, ætlað kókaín. 
Efni sem tekið var af ungum manni sem hafði verið handtekinn nýverið grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Efnapróf bentu til þess að kókaínið væri að mestu á formi kókaínklóríðs en við greininguna kom í ljós að efnið innhélt kókaín, laktósa, fenasetín og tetramísólí.
Fenasetín er hitalækkandi og verkjadeyfandi lyf sem er fyrir löngu hætt að nota hér á landi og Tetramísól er ormalyf ætlað dýrum. Þessi tvö lyf teljast ekki til ávana- og fíkniefna en án efa ekki æskileg inntöku svo ekki sé talað um þegar búið er að blanda þessu í kókaín.
Það er ljóst að það er allskyns ,„skítur“ til sölu hér á landi sem einhverjir eru tilbúnir til þess að taka inn án þess að vera með fulla vissu um hvaða efni er um að ræða.