Skagamaður í Ástralíu: „Óhugnaleg staða en við erum lánssöm“


„Við erum lánsöm að það rigndi hér á þessu svæði fyrir viku síðan. Sú úrkoma slökkti eldana þar sem við búum. En það er óhugnalegt að sjá hvernig staðan er fyrir sunnan okkur,“ segir Skagamaðurinn Hallgrímur Kvaran Gíslason sem búsettur er í Ástralíu þar sem að miklir skógareldar hafa sett samfélagið á hliðina á undanförnum vikum.

Eins og flestir vita hafa fréttir frá skelfilegu ástandi í Ástralíu verið áberandi á undanförnum vikum. Hallgrímur segir að íbúar Ástralíu séu flestir óttaslegnir vegna ástandsins – og framundan séu erfiðir tímar.

„Við erum búsett í Brisbane í Queensland fylki en ástandið er óhugnalegt fyrir sunnan okkur.

Ástralar eru að sjálfsögðu óttaslegnir og sem dæmi þá er herinn komin á svæðið til þess að flytja fólk af stóru svæði. Útlitið fyrir laugardaginn 4. janúar er ekki gott. Það gæti verið versti dagurinn í þessum hörmungum. Spáð er allt að 45 gráðu hita, miklum vindi og sérstaklega þurru lofti.“

Hér fyrir neðan má sjá kort af þeim svæðum þar sem að skógareldarnir eru í Ástralíu en Hallgrímur býr í Brisbane í Queensland.

Hallgrímur starfar fyrir íslenska fyrirtækið Marel en hann flutti til Ástralíu fyrir þremur árum.

„Það eru um 60 starfsmenn hér í Ástralíu hjá Marel. Ég starfa sem tæknilegur ráðgjafi í sölumálum fyrir vinnslulínur í kjötiðnaði.“

Aðspurður segir Skagamaðurinn að hann sé ekki að leiða hugann að því að flytja heim á Ísland á næstunni.

„Ég kom hingað fyrir þremur árum og á þeim tíma hef ég kynnst ástralskri konu. Hún heitir Joanne Jones.

Það er því útlit fyrir að ég verði hér áfram, í nokkur ár til viðbótar, og síðan er planið að færa sig um set.

Ég er ekki endilega á heimleið til Íslands – allavega ekki á næstu árum,“ segir Hallgrímur Kvaran að lokum.

Hallgrímur Kvaran er fæddur á Akranesi árið 1969. Foreldrar hans eru Gísli B. Kvaran múrarameistari og Anna Alfreðsdóttir. Systir Hallgríms er Valdís Kvaran. 
Frá vinstri: Valdís, Hallgrímur, Anna og Gísli B.