Stefán Teitur valinn í A-landsliðshóp í fyrsta sinn


Skagamaðurinn Stefán Teitur Þórðarson fær sitt fyrsta A-landsliðsverkefni með karlalandsliði Íslands í knattspyrnu á næstunni.

Stefán Teitur, sem er fæddur árið 1998, hefur verið kallaður inn í 23-manna landsliðshóp Íslands sem mætir El Salvador og Kanada í janúar.

Stefán Teitur kemur inn í hópinn í stað hins þaulreynda Emils Hallfreðssonar sem getur ekki tekið þátt í verkefninu – þar sem hann samdi nýverið við lið á Ítalíu.

Tveir leikmenn úr liði ÍA verða því í landsliðshópnum í janúar en Tryggvi Hrafn Haraldsson er einnig í hópnum.

Eins og áður segir hefur Stefán Teitur ekki verið í A-landsliðshóp Íslands áður. Stefán Teitur hefur verið fastamaður í U-21 árs landsliði Íslands að undanförnu og leikið alls 12 leiki og skorað 1 mark.