Landhelgisgæslan fjarlægði sprengju úr sýningu Byggðasafnsins í Görðum


„Þegar ég var að sýna gestum og gangandi safnið þá tók maður oft þessa sprengju og var að handfjatla hana. Þegar maður hugsar til þess nú í dag þá hrýs manni svolítið hugur,“ segir Jón Heiðar Allansson forstöðumaður Byggðasafnsins á Görðum í viðtali í síðdegisútvarpi RÚV í dag.

Sprengja sem var til sýnis á Byggðasafninu Görðum á Akranesi í 40 ár gæti mögulega verið virk. Og var sprengjan fjarlægð í dag af liðsmönnum Landhelgisgæslunnar.

Jón Heiðar segir að hann hafi mörgum sinnum handfjatlað sprengjuna og gestum safnsins hafi gefist kostur á að snerta sprengjuna.

Sprengjan er frá því svæði þar sem að skipið El Grillo sökk árið 1944 í Seyðisfirði. Kafari sem kafaði niður að flaki El Grillo fyrir um 40 árum gaf safninu sprengjuna á sínum tíma.

Jón segir að kafari hafi gefið safninu sprengjuna sem hann hafi kafað eftir að flaki El Grillo. Skipinu var sökkt við Seyðisfjörð árið 1944.

Erlendir gestir hafi sérstaklega spáð í hvort sprengjan gæti verið virk. „Við vorum ekkert að spá í það hér á safninu,“ bætir Jón Heiðar við en viðtalið er í heild sinni hér.