Brimrún skrifaði nýjan kafla í sögu klifuríþróttarinnar á Akranesi


Klifuríþróttin hefur verið á hraðri uppleið síðustu árin hér á Akranesi. Klifurfélag ÍA hefur haldið úti öflugu starfi fyrir klifrara á öllum aldri og nú er svo komið að ÍA sendir keppanda til keppni í klifri á Alþjóðlegu Reykjavíkurleikunum, Reykjavík International Games, sem fara fram í þrettánda sinn dagana 23.janúar til 2.febrúar.

Þetta er í fyrsta skipti sem keppt er í klifri á mótinu og öllu verður til tjaldað til að keppnin verði sem glæsilegust. 

Brimrún Eir Óðinsdóttir hefur æft klifur af kappi frá því Klifurfélag ÍA var stofnað og er einn reynslumesti klifri félagsins. Brimrún Eir keppti fyrir hönd ÍA á Reykavíkurleikunum s.l. fimmtudag og þar var hún í hópi átta sterkustu kvennklifrara í sínum flokki. 

“Ég byrjaði að æfa klifur fyrir sjö árum. Mamma mín sá auglýsingu fyrir klifur á Akranesi á og ég fór niður í kjallarann á Vesturgötunni (innsk. þáverandi aðstaða Klifurfélags ÍA) til að prófa það og fannst það svo gaman að ég vildi halda áfram,” segir Brimrún Eir.

Keppnistímabilið í klifri er yfir vetrartímann og þá er keppt bæði í grjótglímu og línuklifri.

Brimrún Eir hefur landað tveimur Íslandsmeistaratitlum fyrir ÍA í yngri flokkum en keppir nú í fullorðinsflokki í annað sinn, en hún hafnaði í þriðja sæti á Íslandsmeistaramótaröðinni á síðasta ári.

Hún hefur einnig tekið þátt í landsliðsverkefnum á vegum Klifurnefndar ÍSÍ og hefur sett stefnuna á Norðurlandamótið í klifri. 

“Það er alltaf eitthvað nýtt í klifri svo það er mjög fjölbreytt íþrótt. Ég keppi í klifri bæði til að halda sambandi við aðra klifrara á mínum aldri og af því að það er skemmtileg stemmning á mótum og góður félagsskapur í klifrinu. Ég klifra allt árið, æfa inni á veturna á Smiðjuloftinu og klifra úti á sumrin. Ég fer á 3-4 klifuræfingar á viku og svo í ræktina tvisvar í viku, en ég æfi líka körfubolta þrisvar í viku til að hafa smá fjölbreytni”, segir Brimrún Eir. 

Klifur á Reykjavíkurleikunum fór fram fimmtudagskvöldið 30. janúar í Klifurhúsinu í Reykjavík. Mótinu var streymt í beinni á vefnum á meðfylgjandi hlekk.