Sex ökumenn verða kærðir fyrir of hraðan akstur við Grundaskóla


Lögreglan á Vesturlandi hvetur ökumenn til þess að sýna meiri aðgæslu í umferðinni og sérstaklega á svæðum þar sem að mikið er um gangandi vegfarendur.

Í pistli sem birtur var á fésbókarsíðu Lögreglunnar á Vesturlandi kemur fram að 6 ökumenn verði kærðir fyrir of hraðan akstur við Grundaskóla eftir hraðamælingar sem þar fóru fram á þriðjudaginn.

Hér má sjá pistilinn frá Lögreglunni á Vesturlandi.

Of margir ökumenn aka of hratt í umdæminu. Við höfum reglulega verið að mæla ökuhraða í þéttbýli og mynda hraðabrot á ómerktum og merktum lögreglubílum. Í dag mældum við hraða á nokkrum stöðum, þ. á m. á Innnesvegi við Akraneshöllina, þar sem hámarkshraði er 30 km. Mældum 160 ökutæki á einni klukkustund í morgun. Af þeim verða 6 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók mældist á 50 km. hraða. Innesvegur við Akraneshöllina er sérstaklega varhugaverður vegna umferðar gangandi vegfarenda og þá sérstaklega barna á öllum aldri. Sumir ökumenn þurfa að taka sig á og sýna meiri aðgæslu í umferðinni.