Valdís Þóra tekur gott stökk upp heimslistann í golfi



Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Leyni á Akranesi, fór upp um 63 sæti á heimslistanum í golfi sem var uppfærður í gær.

Heimslistinn er byggður á árangri kylfinga á átta atvinnumótaröðum á heimsvísu (LPGA, JLPGA, KLPGA, LET, ALPG, Symetra Tour, LETAS, CLPGA). Þegar listinn er uppfærður vikulega er litið til árangurs kylfinga á tveggja ára tímabili.

Heimslistinn er í heild sinni hér:

Valdís Þóra er í sæti nr. 536 en hún tekur gott stökk upp listann eftir að hafa endað í 7. sæti á LET Evrópumótaröðinni í Suður-Afríku í síðustu viku.

Í upphafi ársins var Valdís Þóra í sæti nr. 629 á heimslistanum. Besti árangur Valdísar Þóru á heimslistanum er sæti nr. 299 í mars árið 2018.

Þrjár íslenskar konur eru á heimslista atvinnukylfinga í kvennaflokki. Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili er í sæti nr. 874 og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR er í sæti nr. 875.

Heimslistinn er í heild sinni hér: