Ólafía og Axel sigruðu á B59 Hotel mótinu á Akranesi – Útsending ÍATV vakti athygli


Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR og Axel Bóasson úr Keili stóðu uppi sem sigurvegarar á B59 Hotel mótinu sem lauk í kvöld á Garðavelli á Akranesi. Skagakonan Valdís Þóra Jónsdóttir endaði í öðru sæti í kvennaflokk en hún var hársbreidd frá sigrinum.

Golfklúbburinn Leynir sá um framkvæmd mótsins. Keppendur voru afar ánægðir með ástand Garðavallar sem er í fremstu röð keppnisvalla landsins um þessar mundir. Útsending ÍATV vakti einnig mikla athygli og mörg hundruð áhorfendur fylgdust með beinni útsendingu frá lokahringnum.

Miklar sviptingar voru á lokahringnum og mikil spenna á lokakafla mótsins. Rástímum keppenda var seinkað fram yfir hádegi vegna veðurs og voru aðstæður nokkuð krefjandi – sérstaklega á fyrri hluta hringsins vegna úrkomu. Veðrið lagaðist töluvert þegar líða fór á daginn og í mótslok var veðrið með ágætum.

Ólafía Þórunn tryggði sér sigurinn með pari á lokaholunni en Valdís Þóra var með fimm högga forskot á Ólafíu fyrir lokahringinn.

Axel lék lokahringinn á -1 en Haraldur Franklín Magnús úr GR gat komið sér í bráðabana um sigurinn með því að setja niður 2-3 metra pútt fyrir pari á 18. flötinni. Það tókst ekki og Axel fagnaði sigrinum á -6 samtals eins og áður segir.

Þrír kylfingar úr Leyni tóku þátt. Valdís Þóra, sem endaði í öðru sæti, Björn Viktor Viktorsson komst í gegnum niðurskurðinn og endaði í 57. sæti. Alex Hinrik Haraldsson var að leika í fyrsta sinn á mótaröð þeirra bestu en hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn.

Skor – holu fyrir holu – smelltu hér.

Myndir frá 1. keppnisdegi:

Myndir frá 2. keppnisdegi:

Leiknar voru 54 holur eða þrír keppnishringir á þremur keppnisdögum. Mótið var fyrsta mótið af alls fimm sem eru á stigamótaröð GSÍ tímabilið 2020.

Frá vinstri: Birgir Leifur Hafþórsson íþróttastjóri Leynis, Valdís Þóra Jónsdóttir, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Rakel Óskarsdóttir framkvæmdastjóri Leynis.

Frá vinstri: Birgir Leifur Hafþórsson íþróttastjóri Leynis, Hlynur Bergsson, Hákon Örn Magnússon, Axel Bóasson, Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, Haraldur Franklín Magnús og Rakel Óskarsdóttir framkvæmdastjóri Leynis.

Lokakeppnisdagur:

Axel Bóasson úr Keili sigraði í karlaflokki en hann lék samtals 6 höggum undir pari samtals. Haraldur Franklín Magnús úr GR varð annar á -5. Haraldur fékk skolla á lokaholunni en með pari hefði hann og Axel farið í bráðabana. Axel lék síðari 9 holurnar á -3 á lokahringnum en Haraldur Franklín tapaði tveimur höggum á þremur síðustu holunum

Hlynur Bergsson, GKG; Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, GS, og Hákon Örn Magnússon, GR, deildu þriðja sætinu á -4 samtals.

Lokastaða efstu kylfinga í karlaflokki:

1. Axel Bóasson, (GK) 210 högg (73-66-71) (-6)
2. Haraldur Franklín Magnús, (GR) 211 högg (67-68-76) (-5)
3.-5. Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, (GS) 212 högg (71-68-73) (-4)
3.-5. Hlynur Bergsson, (GKG) 212 högg (68-70-74) (-4)
3.-5. Hákon Örn Magnússon, (GR) 212 högg (67-69-76) (-4)
6. Andri Þór Björnsson, (GR) 213 högg (71-69-73) (-3)
7. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, (GR) 214 högg (69-72-73) (-2)
8. Jóhannes Guðmundsson, (GR) 215 högg (70-71-74) (-1)


Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, sigraði í kvennaflokki. Miklar sviptingar voru á lokahringnum í kvennaflokki þar sem að Valdís Þóra var með fimm högga forskot á Ólafíu fyrir lokahringinn. Ólafía lék lokahringinn á einu höggi yfir pari eða 73 höggum en Valdís Þóra lék á 79 höggum eða +7. Úrslitin réðust á lokaholunni þar sem Ólafía Þórunn fékk par en Valdís Þóra fékk skolla. 

Lokastaða efstu kylfinga í kvennaflokki: 

1. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, (GR) 213 högg (68-72-73) (-3)
2. Valdís Þóra Jónsdóttir, (GL) 214 högg (67-68-79) (-2)
3. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, (GK) 217 högg (71-72-74) (+1)
4. Ragnhildur Kristinsdóttir, (GR) 220 högg (74-71-75) (+4)
5. Hulda Clara Gestsdóttir,  (GKG) 221 högg (74-75-72) (+5)
6. Saga Traustadóttir, (GR) 224 högg (73-76-74) (+8)

2. keppnisdagur:

Frábært skor einkenndi skor keppenda á öðrum keppnisdegi B59 Hotel mótsins sem fram fer á frábærum Garðavelli á Akranesi. Haraldur Franklín Magnús úr GR og Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni á Akranesi eru á sama skori í efstu sætum í karla – og kvennaflokki. 

Mótið er fyrsta mót ársins á stigamótaröð GSÍ en Golfklúbburinn Leynir er framkvæmdaaðili mótsins. 

Valdís er á 9 höggum undir pari og með fimm högga forskot. Haraldur Franklín er einnig á -9 en hann er með eitt högg í forskot á félaga sinn úr GR, Hákon Örn Magnússon.

Eins og áður segir var skor keppenda frábært í dag í góðum aðstæðum á Akranesi. Axel Bóasson hjó ansi nærri vallarmetinu í karlaflokki en hann lék á 66 höggum eða -6 og fór upp um 15 sæti í dag. 

Vallarmetið sem Kristján Þór Einarsson, GM, setti árið 2016 á stigamótaröð GSÍ stendur enn, en það er 65 högg eða -7. 

Aron Snær Júlíusson úr GKG átti næst besta hring dagsins í karlaflokki en hann lék á 67 höggum eða -5 og bætti sig um 8 högg á milli hringja. 

Staðan er hér: 

Staða efstu kylfinga í karlaflokki: 

1. Haraldur Franklín Magnús, GR 67-68 högg (-9)
2. Hákon Örn Magnússon, GR 67-69högg (-8)
3. Hlynur Bergsson, GKG 68-70 högg (-6)
4.-5. Axel Bóasson, (GK) 73-66 högg (-5)
4.-5. Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, (GS) 71-68 högg (-5)
6.-7. Andri Þór Björnsson, (GR) 71-69 högg (-4)
6.-7. Dagbjartur Sigurbrandsson (GR) 69-71 högg (-4)
8.-9. Jóhannes Guðmundsson, (GR) 70-71 högg (-3)
8.-9. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, (GR) 69-72 högg (-3)
10.-11. Aron Snær Júlíusson, (GKG) 75-67 högg (-2)
10.-11. Lárus Ingi Antonsson, (GA) 71-71 högg (-1)


Valdís Þóra Jónsdóttir er með fimm högga forskot fyrir lokahringinn í kvennaflokki á B59 Hotel mótinu sem fram fer á Garðavelli á Akranesi. Valdís Þóra hefur leikið mjög vel fyrstu tvo dagana og er hún á 9 höggum undir pari vallar.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er á -4 í öðru sæti og Guðrún Brá Björgvinsdóttir er á -1 samtals en þær tvær síðastnefndu léku báðar á pari vallar í dag.

Valdís Þóra hjó nærri vallarmetinu af bláum teigum í kvennaflokki á fyrsta keppnisdeginum og hún hélt uppteknum hætti í dag og lék á 68 höggum eða -4. Guðrún Brá á vallarmetið en það setti hún árið 2012 en það er 66 högg.

Skor – holu fyrir holu – smelltu hér.

Staða efstu kylfinga í kvennaflokki:

1. Valdís Þóra Jónsdóttir, (GL) 67-68 högg (-9)
2. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, (GR) 68-72 högg (-4)
3. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, (GK) 71-72 högg (-1)
4. Ragnhildur Kristinsdóttir, (GR) 74-71 högg (+1)
5. Hulda Clara Gestsdóttir, (GKG) 74-75 högg (+5)
6. Saga Traustadóttir, (GR) 73-76 högg (+6)
7. Berglind Björnsdóttir, (GR) 76-77 högg (+9)

1. keppnisdagur:

Haraldur Franklín Magnús og Hákon Örn Magnússon eru efstir og jafnir í karlaflokki að loknum fyrsta keppnisdeginum á B59 Hotel mótinu sem fram fer á Garðavelli á Akranesi. 

Haraldur Franklín og Hákon Örn, sem eru báðir úr Golfklúbbi Reykjavíkur, léku báðir á 67 höggum eða -5. Hlynur Bergsson úr GKG er í þriðja sæti á -4 eða 68 höggum. 

Staðan er hér: 

Vallarmetið sem Kristján Þór Einarsson, GM, setti árið 2016 á stigamótaröð GSÍ stendur enn, en það er 65 högg eða -7. 

Alls eru keppnisdagarnir þrír og ráðast úrsltin á sunnudaginn. 

Mótið er fyrsta mót tímabilsins á stigamótaröð GSÍ 2020 og er Golfklúbburinn Leynir framkvæmdaraðili mótsins. 

GR-ingar eru áberandi í toppbaráttunni en fjórir af fimm efstu eru úr GR að loknum fyrsta keppnisdeginum. 

Alls léku 14 keppendur undir pari Garðavallar í dag í frábærum aðstæðum og veðri. 

Staða efstu kylfinga í karlaflokki: 

1.-2. Haraldur Franklín Magnús, GR 67 högg (-5)
1.-2. Hákon Örn Magnússon, GR 67 högg (-5)
3. Hlynur Bergsson, GKG 68 högg (-4)
4.-5. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR 69 högg (-3)
4.-5. Dagbjartur Sigurbrandsson (GR) 69 högg (-3)
6.-9. Aron Emil Gunnarsson, (GOS) 70 högg (-2)
6.-9. Bragi Arnarson, (GR) 70 högg (-2)
6.-9. Ragnar Már Ríkharðsson, (GM) 70 högg (-2)
6.-9. Jóhannes Guðmundsson, (GR) 70 högg (-2)
10.-14. Kristófer Tjörvi Einarsson, (GV) 71 högg (-1)
10.-14. Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, (GS) 71 högg (-1)
10.-14. Sverrir Haraldsson, (GM) 71 högg (-1)
10.-14. Lárus Ingi Antonsson, (GA) 71 högg (-1)
10.-14. Andri Þór Björnsson, (GR) 71 högg (-1)

Konur 1. keppnisdagur.

Þrír atvinnukylfingar eru efstir í kvennaflokki á B59 Hotel mótinu eftir 1. keppnisdaginn á Garðavelli á Akranesi. Valdís Þóra Jónsdóttir, sem er á heimavelli á þessu móti, er efst á 67 höggum eða fimm höggum undir pari. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR er höggi á eftir á -4 og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Íslandsmeistari í golfi undanfarin tvö ár, er þriðja á -1. 

Valdís Þóra hjó nærri vallarmetinu af bláum teigum í kvennaflokki. Guðrún Brá á það met en það setti hún árið 2012 en það er 66 högg. 

Staða efstu kylfinga í kvennaflokki: 

1. Valdís Þóra Jónsdóttir, (GL) 67 högg (-5)
2. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, (GR) 68 högg (-4)
3. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, (GK) 71 högg (-1)
4.-5. Saga Traustadóttir, (GR) 73 högg (+1)
4.-5. Andrea Ýr Ásmundsdóttir, (GA) 73 högg (+1)
6.-7. Hulda Clara Gestsdóttir,  (GKG) 74 högg (+2)
6.-7. Ragnhildur Kristinsdóttir, (GR) 74 högg (+2)
8. Perla Sól Sigurbrandsdóttir, (GR) 75 högg (+2)
9.-12. Hafdís Alda Jóhannsdóttir, (GK) 76 högg (+4)
9.-12. Heiðrún Anna Hlynsdóttir, (GOS) 76 högg (+4)
9.-12. Berglind Björnsdóttir, (GR) 76 högg (+4)


Bestu kylfingum landsins eru skráðir sig til leiks. leiks, atvinnukylfingar sem og áhugakylfingar. Alls eru 125 kylfingar skráðir til leiks, 98 karlar og 27 konur.

Atvinnukylfingarnir Guðrún Brá Björgvinsdóttir (GK), Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (GR) og Valdís Þóra Jónsdóttir eru á meðal keppenda – og er þetta í annað sinn á einni viku sem þær eru allar þrjár að keppa á sama mótinu. Það eru fjögur ár frá því að þær voru allar á sama tíma við keppni á Íslandi eða á Íslandsmótinu 2016 á Akureyri.

Í karlaflokki eru einnig sterkustu leikmenn landsins skráðir til leiks. Má þar nefna atvinnukylfinga á borð við Andra Þór Björnsson (GR), Guðmund Ágúst Kristjánsson (GR), Harald Franklín Magnús (GR), Bjarka Pétursson (GKB), Axel Bóasson (GK), Rúnar Arnósson (GK), Ólaf Björn Loftsson (GKG) og fleiri.

Á Akranesi er öflugt teymi sjálfboðaliða sem standa að sjónvarpsstöðinni ÍATV sem sendir út á samfélagsmiðlinum Youtube. ÍATV mun sýna frá mótinu á tveimur síðustu keppnisdögunum.

Á laugardag verður sýnt frá 9. flöt Garðavallar og á lokahringnum verður sýnt frá 18. flöt þegar spennan nær hámarki. Útsendingunni og skori keppenda verður verður varpað upp á skjám í frístundamiðstöðinni Garðavöllum við Garðavöll.