Tinna Rós er Bæjarlistamaður Akraness 2020


Tinna Rós Þorsteinsdóttir, Tinna Royal, er Bæjarlistamaður Akraness 2020.

Tilkynnt var um valið þann 17. júní s.l.

Tinna er fædd árið 1982 og hefur lengst af verið búsett á Akranesi. Að loknu grunnskólanámi stundaði hún nám við Myndlistaskólann á Akureyri og útskrifaðist úr fornámi skólans árið 2013.

Tinna er lífleg, framsækin og skapandi listakona sem vert er að gefa gaum. Tinna fæst við fjölbreytt viðfangsefni í list sinni. Hún er hugmyndarík listakona sem er í stöðugri þróun. Hún vinnur með skemmtileg viðfangsefni sem hún setur í nýtt samhengi. Þar má meðal annars nefna hvernig henni tekst að vekja áhuga á vöruhönnun og draga fram áhugaverðan og listrænan flöt á vörum sem hafa um árabil verið hluti af lífi okkar. 

Á undanförnum árum hefur Tinna auðgað menningarlíf á Akranesi og verið iðin við sýningahald á verkum sínum og jafnframt verið í samstarfi við aðra listamenn. Þá hefur hún oft á tíðum verið með opið á vinnustofu sinni þar sem allir eru velkomnir. Tinna er dugleg að deila efni af á samfélagsmiðlum þar sem fólki gefst kostur á að fylgjast með vinnu hennar frá því að hugmynd vaknar og þar til verk eru full kláruð.
Síðast en ekki síst hefur hún staðið fyrir myndlistarnámskeiðum fyrir börn og ungmenni sem er kærkomið í frístundaflóruna hér á Akranesi.

Þeir sem vilja kynna sér list Tinnu er bent á Fésbókarsíðu Tinnu RoyalTinnu Royal á Instagram og tinnaroyal á Snapchat.

Eftirtaldir listamenn hafa fengið titilinn bæjarlistamaður Akraness:

2020: Tinna Rós Steindórsdóttir.
2019: Bjarni Skúli Ketilsson, myndlistamaður
2018: Eðvarð Lárusson, tónlistamaður.
2017: Kolbrún S. Kjarval leirlistakona
2016: Slitnir strengir, þjóðlagasveit
2015: Gyða L. Jónsdóttir Wells myndhöggvari
2014: Erna Hafnes myndlistakona
2013: Sigurbjörg Þrastardóttir rithöfundur
2012: Sveinn Arnar Sæmundsson orgelleikari
2011: Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópransöngkona
2010: Dýrfinna Torfadóttir gullsmiður
2005-2009: Friðþjófur Helgason ljósmyndari (eitt kjörtímabil)
2004: Bragi Þórðarson bókaútgefandi og rithöfundur
2003: Enginn hlaut nafnbótina þetta árið en menningarmála- og safnanefnd ákvað að nýta starfsstyrk fyrir menningarviku í október (fyrstu Vökudagarnir)
2002: Kristján Kristjánsson rithöfundur og bókaútgefandi
2001: Smári Vífilsson tenórsöngvari
1999-2000: Enginn hlaut nafnbótina þessi ár en starfslaun bæjarlistamanna var varið til að styrkja listamenn á Akranesi sem gerðu listaverk tengd viðfangsefninu Sjávarlist
1998: Kristín Steinsdóttir rithöfundur
1997: Bjarni Þór Bjarnason myndlistarmaður
1996: Philippe Ricart handverksmaður
1994-1995: Guttormur Jónsson högglistamaður
1993: Helena Guttormsdóttir myndlistarmaður
1992: Hreinn Elíasson myndlistarmaður