Akraneskaupstaður og Festi skipta á lóðum – N1 byggir upp við Hausthúsatorg


Akraneskaupstaður og Festi hf., sem er eigandi N1, hafa samið um að skipta á lóðum. Samningurinn felur í sér að núverandi N1 stöð við Þjóðbraut verður afhent bænum í skiptum fyrir nýja lóð við hringtorgið Hausthúsatorg þar sem ekið er inn í bæinn af Þjóðvegi 1.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað sem er hér fyrir neðan.

Reikna má með að framkvæmdir hefjist á nýrri lóð fljótlega á nýju ári.

„Þessi nýja lóð við Hausthúsatorg gefur okkur mikil tækifæri til framtíðar í að bæta enn frekar þjónustu við bæjarbúa og aðra viðskiptavini og það hefur verið ánægjulegt að eiga þetta samstarf við Akranes um lóðaskiptin, sem nýtist báðum aðilum afar vel,“ segir Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1.

„Akraneskaupstaður fær við þessi skipti lóðirnar við Þjóðbraut 9, 11 og 14 ásamt þeim mannvirkjum sem á lóðinni standa og afhendir í staðinn 13.000 fermetra lóð við Hausthúsatorg. Við höfum verið að skoða þessi mál í nokkurn tíma og fundum strax að samhljómur var með aðilum í málinu og því gekk þetta skjótt fyrir sig,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi.

N1 verður með eldsneytissölu, verslun og þjónustu í nýju stöðinni, en hún verður opnuð um það bil 24 mánuðum eftir afhendingu lóðarinnar. Núverandi N1 stöð verður starfrækt áfram þar til nýja stöðin verður opnuð.

http://localhost:8888/skagafrettir/2019/12/23/skutan-a-forum-n1-oskar-eftir-landi-vid-hausthusatorg/