Ná Jón Þór og Hallbera Guðný að koma liði Íslands á EM? – risaleikur gegn Svíum í dag

Skagamaðurinn Jón Þór Hauksson stýrir kvennalandsliði Íslands í dag í afar mikilvægum leik gegn Svíum í undankeppni EM. Leikurinn fer fram í borginni Gautaborg í Svíþjóð og hefst leikurinn kl. 17:30. Bein útsending verður á RÚV frá leiknum. Jón Þór segir í samtali við RÚV að leikurinn verði afar erfiður en liðin eru í harðri baráttu um sigurinn í riðlinum eftir að hafa gert 1-1 jafntefli á Laugardalsvelli í september.

Hallbera Guðný Gísladóttir, fyrrum leikmaður ÍA, verður án efa í byrjunarliði Íslands en hún þekkir lið Svía vel eftir að hafa leikið þar sem atvinnumaður.

Íslenska liðið hefur verið í eina viku við æfingar í Gautaborg vegna Covid-19 ástandsins og er það óvenjulega langur tími fyrir landsliðsundirbúning.

„Ég held að þetta verði mjög erfiður leikur fyrir okkur og fyrir Svíana líka. Þetta eru tvö góð lið, þetta eru tvö lið sem eru góð í föstum leikatriðum, þau eru góð og hafa skorað mikið af mörkum eftir föst leikatriði. En við erum það líka og okkur hefur gengið mjög vel að verjast því, í gegnum tíðina líka, þannig að ég á von á því að það verði sama uppi á teningnum. Okkur gekk mjög vel í Reykjavík að stoppa styrkleika þeirra og ég á ekki von á öðru en að það muni ganga jafn vel og við förum þannig inn í leikinn,“ segir Jón Þór Hauksson í viðtali við RÚV.

Eins og áður segir er leikurinn mikilvægur varðandi úrslitakeppni EM sem fram fer sumarið 2021. Leikurinn í dag ræður að öllum líkindum úrslitum í riðlinum. Svíar eru með 16 stig en Ísland er þremur stigum á eftir en Svíar hafa leikið einum leik meira en Ísland. Eftir leikinn í dag eiga Svíar einn leik eftir en Ísland á tvo leiki.

Efsta lið hvers undanriðlanna níu kemst beint á EM. Þrjú bestu liðin í öðru sæti komast líka áfram en hin sex liðin sem hafna í öðru sæti fara í umspil.

Ef Svíar sigra í dag þá er liðið sex stigum á undan Íslandi og með betri yfirhöndina vegna innbyrðisúrslita gegn Íslandi. Ísland myndi þá berjast um að ná sem flestum stigum í öðru sæti með því að leggja Slóvakíu og Ungverjaland 26. nóvember og 1. desember. Sigur í báðum ætti að öllum líkindum að duga til að vera eitt þriggja bestu liðanna í öðru sæti, en það fer líka eftir úrslitum í öðrum riðlum.

Ef Ísland sigrar blasir sigur í riðlinum við og sæti í úrslitum EM. Sigur í öðrum af lokaleikjum Íslands myndi duga til að komast á EM. Ef jafntefli verðr í leiknum í dag er allt opið en nánar má lesa um þessar vangaveltur á vef RÚV.